Börn á aldrinum 9-12 ára þurfa samþykki forráðamanns til að stofna debetkort og fá aðgang að appi/netbanka. Þegar 13 ára aldri er náð þurfa þau ekki slíkt samþykki. Þegar barn hefur fengið aðgang að netbanka/appi þá hefur það aðgengi að öllum sínum reikningum og kortum. Foreldrar barns, sem fara með forsjá þess, eða aðrir þeir sem falin hefur verið forsjá barns samkvæmt barnalögum fara með fjárhald þess samkvæmt lögræðislögum nr. 71/1997. Því fá forsjáraðilar sjálfkrafa skoðunaraðgang að reikningum sinna barna. Þegar barn nær 18 ára aldri verður barnið fjárráða og þá fellur skoðunaraðgangur forsjáraðila sjálfkrafa niður.
Hvernig er hægt að stofna reikning og fá debetkort fyrir börn?
Til að stofna bankareikning í nafni barns getur forráðamaður sem er í viðskiptum hjá bankanum stofnað sjálfur reikning í gegnum netbanka eða í appi. Ef barnið á rafræn skilríki er einfalt að stofna til viðskipta í appinu eða netbankanum en þá stofnast debetkort og reikningur. Einnig er hægt að panta tíma í ráðgjöf í útibúi og þarf þá forráðamaður að hafa skilríki meðferðis, t.d. vegabréf eða ökuskírteini.
Hvernig þjónusta er í boði fyrir börn og unglinga?
Fyrst um sinn mælum við með að stofnaður sé veltureikningur, sem tengdur er við debetkort, og sparnaðarreikningur. Mikilvægt er að börn læri snemma að umgangast peninga af ábyrgð og því leggjum við mikla áherslu á að kynna fyrir þeim fjármálalæsi, m.a. í gegnum Klassa, þjónustu sem er sérsniðin að þörfum barna og unglinga á aldrinum 9-15 ára. Sprotarnir eru vinsælt app sem Landsbankinn gaf út til að leiðbeina börnum í fjármálum.
Klassareikningur fyrir 9-15 ára
Sparnaður barna
Börn eiga sína peninga sjálf og því er mikilvægt að fjármunir þeirra séu geymdir á reikningum í þeirra eigin nafni. Sérstakar reglur gilda um fjárráð barna sem ekki eru orðin fjárráða (hafa ekki náð 18 ára aldri) og hvetjum við foreldra og forráðamenn til að kynna sér þær. Við mælum með að auk veltureiknings sé stofnaður sparnaðarreikningur í nafni barnsins til að halda utan um sparifé þeirra.
Fermingarsparnaður
Fáðu ráðgjöf
Þú getur alltaf pantað tíma hjá ráðgjöfum okkar, hvort sem er í næsta útibúi eða með því að fá símtal frá okkur þar sem við getum farið yfir þín fjármál eða svarað spurningum. Þjónustuverið aðstoðar líka við alla helstu bankaþjónustu í síma 410 4000 og í gegnum netspjallið á landsbankinn.is.
Greinin birtist fyrst í desember 2020 og var uppfærð í desember 2022.