Vinnumarkaður óðum að ná fyrri styrk

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands er áætlað að um 210.500 manns hafi verið á vinnumarkaði í október 2021, sem jafngildir 79,1% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 198.900 starfandi og um 11.600 atvinnulausir og í atvinnuleit, eða um 5,5% af vinnuaflinu. Starfandi fólki fjölgaði um 17.900 milli ára í október og atvinnulausum fækkaði um 5.700 á sama tíma. Hlutfall starfandi var 74,7% í október og hækkaði um 5,7 prósentustig frá október 2020. Allt eru þetta skýr merki um verulega sterkari vinnumarkað.
Atvinnuþátttaka hefur aukist stöðugt á þessu ári og var 79,1% nú í október sem er 3,5 prósentustigum meira en í október í fyrra. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal var atvinnuþátttaka mest um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í 82%. Samsvarandi tala nú er 78,4% og hefur atvinnuþátttaka aukist nokkuð stöðugt á árinu á þann mælikvarða.
Atvinnuleysi, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, var 5,5% í október sem er 3,2 prósentustigum lægra en á sama tíma í fyrra. Almennt atvinnuleysi skráð hjá Vinnumálastofnun var hins vegar 4,9% í október og hafði minnkað um 5 prósentustig milli ára.
Starfandi fólki í október fjölgaði um 9,9% miðað við sama tíma í fyrra. Vinnutími styttist um 1,3% á sama tíma þannig að heildarvinnustundum fjölgaði um 8,6% milli ára. Þetta er sjöundi mánuðurinn í röð sem við sjáum fjölgun heildarvinnustunda, en þeim var tekið að fækka nokkru áður en faraldurinn brast á og tók svo að fjölga aftur í apríl á þessu ári.
Samkvæmt staðgreiðsluskrám voru um 199.700 manns starfandi í september sl., sem passar vel við niðurstöðu vinnumarkaðskönnunar fyrir október. Töluverðar sveiflur eru á milli mánaða og sé litið til meðaltals síðustu 12 mánaða höfðu um 191 þúsund manns verið á vinnumarkaði síðustu 12 mánuði, 157.400 Íslendingar og 33.400 innflytjendur. Innflytjendur höfðu því verið rúmlega 17% af vinnandi fólki síðustu 12 mánuði, en samsvarandi tala var rúmlega 19% seinni hluta ársins 2019, þegar hlutfall innflytjenda var í hámarki.
Í upphafi ársins 2006 voru innflytjendur rúmlega 7% af starfandi fólki. Myndin er dálítið öðruvísi þegar litið er til hlutfalls innflytjenda af atvinnulausu fólki. Í september í árhöfðu innflytjendur að meðaltali verið rúmlega 40% af þeim sem voru skráðir atvinnulausir síðustu 12 mánuði og hafði hlutfallið tvöfaldast frá seinni hluta ársins 2016. Í upphafi árs 2006 voru innflytjendur innan við 5% af skráðum atvinnulausum. Innflytjendur bera því meiri byrðar af atvinnuleysi en gildir um Íslendinga. Í upphafi ársins 2009 voru hlutfallslega jafn margir innflytjendur starfandi og á atvinnuleysisskrá. Síðan hefur hlutfall innflytjenda af atvinnulausu fólki hækkað verulega umfram fjölda þeirra á vinnumarkaði.
Lesa Hagsjána í heild









