Vikan framundan
- Á mánudag birtir Seðlabankinn tölur um raungengi.
- Á miðvikudag birtir Ferðamálastofa fjölda brottfara um Keflavíkurflugvöll og Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi.
- Í vikunni fara fram verðmælingar fyrir aprílmælingu vísitölu neysluverðs.
Mynd vikunnar
Um 14% fleiri ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í febrúar síðastliðnum en í febrúar í fyrra. Ferðamenn gistu þó skemur en áður, því skráðum gistinóttum fækkaði um 2,7% á milli ára í febrúar samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar. Síðustu þrjá mánuði hefur kortavelta og fjöldi gistinótta dregist saman frá fyrra ári, á sama tíma og ferðamönnum hefur fjölgað á milli ára. Þeir ferðamenn sem hafa komið frá því í desember í fyrra gista því skemur og virðast eyða minna en þeir sem komu fyrir þann tíma. Hvort þessi breyting á neyslumynstri sé afleiðing jarðhræringanna á Reykjanesinu er erfitt að segja. Einhverjir ferðamannastaðir hafa þurft að skerða þjónustu sína í nálægð við eldsumbrotin og það gæti mögulega skýrt stöðuna að einhverju leyti. Þá hefur verið bent á að fyrirtæki í ferðaþjónustutengdum greinum hafi í auknum mæli fært kortaviðskipti sín til erlendra færsluhirða. Sú kortavelta sést ekki svo glöggt í opinberum hagtölum og gæti því verið vanmetin. Það skýrir þó ekki fækkun gistinótta sem er til marks um mögulega breyttar neysluvenjur.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Á miðvikudag birti Seðlabankinn fundagerð peningastefnunefndar. Allir nefndarmenn nema einn voru sammála um að halda vöxtum óbreyttum. Enn væri kraftur í eftirspurn sem kæmi meðal annar fram á húsnæðismarkaði. Spenna væri á vinnumarkaði og ráðningaráform fyrirtækja væru að aukast aftur auk þess sem atvinnuleysi væri lítið. Jafnframt ríkir enn óvissa um hvernig aðgerðir í ríkisfjármálum verði fjármagnaðar og hver áhrif þeirra verði á eftirspurn. Nefndin bíður eftir skýrum vísbendingum um að verðbólga sé „augljóslega á niðurleið“ og telur mikilvægt að vaxtalækkun hefjist á „trúverðugum tímapunkti“.
- Á fimmtudag birti Seðlabankinn yfirlýsingu peningastefnunefndar um breytingu á bindiskyldu lánastofnana. Nefndin hélt aukafund 2. apríl þar sem ákveðið var að hækka fasta bindiskyldu lánastofnana úr 2% í 3% af bindigrunni.
- Reykjavíkurborg hélt skuldabréfaútboð og Iceland Seafood hélt útboð á víxlum.
- Eimskip og Icelandair birtu afkomuviðvörun.
- S&P hækkaði lánshæfismat Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).