Spá­um 8,1% verð­bólgu í des­em­ber

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,76% milli mánaða í desember og að ársverðbólga hækki í 8,1%. Þeir liðir sem vega þyngst til hækkunar á vísitölunni eru flugfargjöld til útlanda, reiknuð húsaleiga og verð á mat og drykkjarvöru. Við gerum áfram ráð fyrir að verðbólga hjaðni eftir áramót og verði 7,3% í janúar, 6,8% í febrúar og 6,7% í mars.
Flugvél
12. desember 2023

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,76% milli mánaða í desember. Gangi spáin eftir hækkar verðbólgan lítillega og verður 8,1%. Flugfargjöld til útlanda hækka um 19,4% samkvæmt spánni og er sá liður sem vegur þyngst til hækkunar á vísitölunni í desember. Reiknuð húsaleiga, þ.e. kostnaður við að búa í eigin húsnæði, hækkar um 1,1% samkvæmt spánni og verð á mat og drykkjarvörum hækkar einnig. Við gerum ráð fyrir að verð á bensíni lækki á milli mánaða.

Spáum því að reiknuð húsaleiga hækki minna en síðustu mánuði

Síðustu þrjá mánuði hefur vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, sem Hagstofan reiknar, hækkað og var hækkunin í síðasta mánuði um 1,4%. Það er nokkuð rífleg hækkun á flesta mælikvarða. Nokkrar ástæður geta verið fyrir hækkunum. Við höfum fjallað um áður að nýleg fjölgun hlutdeildarlána hafi mögulega haft áhrif til hækkunar á íbúðaverðsvísitölum, enda ýta þau undir sölu á nýjum íbúðum sem eru að jafnaði dýrari en þær eldri. Þá má vera að umræða um yfirvofandi íbúðaskort og verðhækkanir kyndi undir eftirspurn, ekki síst á meðal fyrstu kaupenda, og óbreytt vaxtastig í vetur kann að ýta undir bjartsýni á markaðnum.

Við gerum ráð fyrir að vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis hækki um 0,5% milli mánaða sem er nokkuð minni hækkun en síðustu mánuði. Samkvæmt skoðun okkar á kaupskrá fasteigna lækkaði meðalfermetraverð í kaupsamningum sem gerðir voru í október, en vísitalan er reiknuð sem þriggja mánaða hlaupandi meðaltal. Í næstu vísitölumælingu dettur ágúst út, en í þeim mánuði hækkaði fermetraverð töluvert. Við teljum því að hækkunin verði nokkuð minni en síðustu tvo mánuði. Þá gerum við ráð fyrir að áhrif vaxtahlutans verði 0,6% í desember og að reiknuð húsaleiga hækki því um 1,1%.

Verð á flugfargjöldum til útlanda og mat hækkar en bensínverð lækkar

  • Við gerum ráð fyrir að flugfargjöld til útlanda hækki um 19,4% í desember, en flugfargjöld hækka alla jafna í desember, áður en þau lækka svo aftur í janúar.
  • Samkvæmt verðathugun okkar kostar bensínlítrinn að meðaltali 312,8 krónur og lækkaði úr 316,6 krónum frá fyrri mánuði. Verð á díselolíu kostar að meðaltali 316,2 krónur nú og lækkaði úr 320,4 krónum frá fyrri mánuði. Samanlagt teljum við að bensín- og díselolíuverð lækki því um 1,0% á milli mánaða í desember.
  • Við gerum ráð fyrir að verð á mat og drykkjarvöru hækki um 0,5% í desember.

Spá um desembermælingu VNV

       
Undirliður Vægi í VNV Breyting (spá) Áhrif (spá)
Matur og drykkjarvara 15,0% 0,5% 0,08%
Áfengi og tóbak 2,4% 0,2% 0,00%
Föt og skór 3,9% 0,8% 0,03%
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu 9,7% 0,3% 0,03%
- Reiknuð húsaleiga 19,5% 1,1% 0,22%
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. 6,3% 0,7% 0,04%
Heilsa 3,7% 0,3% 0,01%
Ferðir og flutningar (annað) 3,8% 0,5% 0,02%
- Kaup ökutækja 6,0% 0,5% 0,03%
- Bensín og díselolía 2,9% -1,0% -0,03%
- Flugfargjöld til útlanda 1,6% 19,4% 0,31%
Póstur og sími 1,6% -0,6% -0,01%
Tómstundir og menning 10,0% 0,0% 0,00%
Menntun 1,0% -0,1% 0,00%
Hótel og veitingastaðir 5,3% -0,1% -0,01%
Aðrar vörur og þjónusta 7,2% 0,4% 0,03%
Alls 100,0%   0,76%

Við spáum því að verðbólga hækki lítillega í desember en lækki eftir áramót

Við gerum ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,76% í desember, 0,11% í janúar, 0,86% í febrúar og 0,55% í mars á næsta ári. Gangi spá okkar eftir verður verðbólga 8,1% í desember. Eftir áramót hjaðnar hún loks og verður 7,3% í janúar, 6,8% í febrúar og 6,7% í mars. Mánaðarbreytingar á vísitölu neysluverðs voru töluverðar í janúar og febrúar í ár. Þær mælingar detta út úr ársverðbólgunni í janúar og febrúar á næsta ári og við það ætti verðbólgan að hjaðna verulega í byrjun árs.

Spáin fyrir næstu mánuði breytist því lítillega frá fyrri spá. Við teljum áfram að íbúðaverð hækki lítillega næstu mánuði, en áður höfðum við gert ráð fyrir að verðið yrði að mestu óbreytt. Á móti hefur bensínverð lækkað meira en við gerðum áður ráð fyrir og áhrif af hækkun flugfargjalda verður minni í desember en við töldum í fyrri spá.

Í janúar togast yfirleitt á hækkanir vegna gjaldskrárhækkana og lækkanir vegna janúarútsala, þó vísitalan hafi yfirleitt lækkað í janúar. Í ár og í fyrra voru undantekningar á því, en vísitala neysluverðs hækkaði töluvert í janúar á þessu ári, eða um 0,85%. Eins og áður segir gerum við ráð fyrir nokkuð minni hækkun næsta janúar, 0,11%. Þar hefur breyting á stuðningi ríkisins við kaup á rafmagnsbílum áhrif til hækkunar. Einnig tekur Hagstofan inn hækkun á lóðamati í reiknaða húsaleigu í janúar sem ýtir spánni upp, auk annarra gjaldskrárhækkana. Þá hefur nýleg veiking á gengi krónunnar einnig nokkur áhrif á spána næstu mánuði. Við teljum einnig að þótt janúarútsölur verði betri en síðustu tvö ár, verði afslættir ekki jafn ríflegir og fyrir faraldur.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Kranar á byggingarsvæði
15. maí 2024
Ennþá spenna á vinnumarkaði þótt hægi á efnahagsumsvifum
Vinnumarkaðurinn hefur staðið af sér vaxtahækkanir síðustu ára og þótt eftirspurn eftir starfsfólki hafi minnkað er enn þó nokkur spenna á markaðnum. Nýir kjarasamningar kveða á um hóflegri launahækkanir en þeir síðustu og líklega dregur úr launaskriði eftir því sem þensla í hagkerfinu minnkar.
Peningaseðlar
13. maí 2024
Vikubyrjun 13. maí 2024
Samhliða því sem vextir hafa hækkað hafa innlán heimilanna aukist verulega. Þetta hefur skilað sér í stórauknum vaxtatekjum til heimila sem eru nú orðnar meiri en vaxtagjöld.
Fjölbýlishús
10. maí 2024
Spáum hækkandi íbúðaverði
Íbúðaverð hefur hækkað jafnt og þétt á síðustu mánuðum. Í nýrri hagspá spáum við því að það hækki um 7% á þessu ári og um 8-9% næstu tvö ár. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun spáir því að nýjum fullbúnum íbúðum fækki með hverju árinu og fjöldi þeirra komist ekki nálægt því að mæta íbúðaþörf.
Fólk við Geysi
7. maí 2024
Annað metár í ferðaþjónustu í uppsiglingu?
Síðasta ár var metár í íslenskri ferðaþjónustu á flesta mælikvarða, þó ekki hafi verið slegið met í fjölda ferðamanna. Hlutur ferðaþjónustunnar af landsframleiðslu var um 8,8% í fyrra og hefur aldrei verið stærri. Í nýrri hagspá gerum við ráð fyrir að fjöldi ferðamanna í ár jafni metið frá 2018 og að verðmætin sem greinin skili af sér verði meiri en nokkru sinni fyrr.
6. maí 2024
Vikubyrjun 6. maí 2024
Álit markaðsaðila á taumhaldi peningastefnu hefur breyst verulega á síðustu mánuðum þrátt fyrir að stýrivextir hafa verið óbreyttir síðan í ágúst í fyrra. Skýrist það af að verðbólga hefur hjaðnað og hægst hefur á hagkerfinu.
3. maí 2024
Væntingar og verðbólguhorfur aftra vaxtalækkun
Við spáum því að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Þótt verðbólga hafi hjaðnað verulega í apríl og ýmis merki séu komin fram um að undirliggjandi verðbólga fari hjaðnandi teljum við horfur á að verðbólga verði föst í kringum 6% fram yfir sumarmánuðina. Auk þess teljum við að nefndin líti svo á að verðbólguvæntingar hafi ekki gefið nægjanlega eftir og að enn séu merki um þó nokkra spennu í hagkerfinu.  
2. maí 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 2. maí 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Fólk að ganga við Helgafell
29. apríl 2024
Vikubyrjun 29. apríl 2024
Hagvöxtur verður takmarkaður á næstu árum, samkvæmt nýrri hagspá til ársins 2026 sem við gáfum út í morgun. Við spáum 0,9% hagvexti í ár, 2,2% á næsta ári og loks 2,6% árið 2026.
Fólk að ganga við Helgafell
29. apríl 2024
Hagspá 2024-2026: Þrautseigt hagkerfi við háa vexti
Hagfræðideild Landsbankans spáir því að hagvöxtur verði afar lítill í ár þar sem háir vextir halda aftur af umsvifum í hagkerfinu. Verðbólga verði þrálát og vextir lækki ekki fyrr en í haust.
Flugvél
24. apríl 2024
Verðbólgan lækkaði í 6,0%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,55% milli mánaða í apríl og við það lækkaði ársverðbólga úr 6,8% í 6,0%. Í þetta sinn höfðu tveir undirliðir langmest áhrif á mælinguna, reiknuð húsaleiga og flugfargjöld til útlanda. Þessir tveir undirliðir skýra 95% af hækkun vísitölunnar milli mánaða. Við teljum að verðbólgan haldist í kringum 6% næstu þrjá mánuði.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur