Spáum 8,1% verðbólgu í desember
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,76% milli mánaða í desember. Gangi spáin eftir hækkar verðbólgan lítillega og verður 8,1%. Flugfargjöld til útlanda hækka um 19,4% samkvæmt spánni og er sá liður sem vegur þyngst til hækkunar á vísitölunni í desember. Reiknuð húsaleiga, þ.e. kostnaður við að búa í eigin húsnæði, hækkar um 1,1% samkvæmt spánni og verð á mat og drykkjarvörum hækkar einnig. Við gerum ráð fyrir að verð á bensíni lækki á milli mánaða.
Spáum því að reiknuð húsaleiga hækki minna en síðustu mánuði
Síðustu þrjá mánuði hefur vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis, sem Hagstofan reiknar, hækkað og var hækkunin í síðasta mánuði um 1,4%. Það er nokkuð rífleg hækkun á flesta mælikvarða. Nokkrar ástæður geta verið fyrir hækkunum. Við höfum fjallað um áður að nýleg fjölgun hlutdeildarlána hafi mögulega haft áhrif til hækkunar á íbúðaverðsvísitölum, enda ýta þau undir sölu á nýjum íbúðum sem eru að jafnaði dýrari en þær eldri. Þá má vera að umræða um yfirvofandi íbúðaskort og verðhækkanir kyndi undir eftirspurn, ekki síst á meðal fyrstu kaupenda, og óbreytt vaxtastig í vetur kann að ýta undir bjartsýni á markaðnum.
Við gerum ráð fyrir að vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis hækki um 0,5% milli mánaða sem er nokkuð minni hækkun en síðustu mánuði. Samkvæmt skoðun okkar á kaupskrá fasteigna lækkaði meðalfermetraverð í kaupsamningum sem gerðir voru í október, en vísitalan er reiknuð sem þriggja mánaða hlaupandi meðaltal. Í næstu vísitölumælingu dettur ágúst út, en í þeim mánuði hækkaði fermetraverð töluvert. Við teljum því að hækkunin verði nokkuð minni en síðustu tvo mánuði. Þá gerum við ráð fyrir að áhrif vaxtahlutans verði 0,6% í desember og að reiknuð húsaleiga hækki því um 1,1%.
Verð á flugfargjöldum til útlanda og mat hækkar en bensínverð lækkar
- Við gerum ráð fyrir að flugfargjöld til útlanda hækki um 19,4% í desember, en flugfargjöld hækka alla jafna í desember, áður en þau lækka svo aftur í janúar.
- Samkvæmt verðathugun okkar kostar bensínlítrinn að meðaltali 312,8 krónur og lækkaði úr 316,6 krónum frá fyrri mánuði. Verð á díselolíu kostar að meðaltali 316,2 krónur nú og lækkaði úr 320,4 krónum frá fyrri mánuði. Samanlagt teljum við að bensín- og díselolíuverð lækki því um 1,0% á milli mánaða í desember.
- Við gerum ráð fyrir að verð á mat og drykkjarvöru hækki um 0,5% í desember.
Spá um desembermælingu VNV
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
Matur og drykkjarvara | 15,0% | 0,5% | 0,08% |
Áfengi og tóbak | 2,4% | 0,2% | 0,00% |
Föt og skór | 3,9% | 0,8% | 0,03% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 9,7% | 0,3% | 0,03% |
- Reiknuð húsaleiga | 19,5% | 1,1% | 0,22% |
Húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. | 6,3% | 0,7% | 0,04% |
Heilsa | 3,7% | 0,3% | 0,01% |
Ferðir og flutningar (annað) | 3,8% | 0,5% | 0,02% |
- Kaup ökutækja | 6,0% | 0,5% | 0,03% |
- Bensín og díselolía | 2,9% | -1,0% | -0,03% |
- Flugfargjöld til útlanda | 1,6% | 19,4% | 0,31% |
Póstur og sími | 1,6% | -0,6% | -0,01% |
Tómstundir og menning | 10,0% | 0,0% | 0,00% |
Menntun | 1,0% | -0,1% | 0,00% |
Hótel og veitingastaðir | 5,3% | -0,1% | -0,01% |
Aðrar vörur og þjónusta | 7,2% | 0,4% | 0,03% |
Alls | 100,0% | 0,76% |
Við spáum því að verðbólga hækki lítillega í desember en lækki eftir áramót
Við gerum ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,76% í desember, 0,11% í janúar, 0,86% í febrúar og 0,55% í mars á næsta ári. Gangi spá okkar eftir verður verðbólga 8,1% í desember. Eftir áramót hjaðnar hún loks og verður 7,3% í janúar, 6,8% í febrúar og 6,7% í mars. Mánaðarbreytingar á vísitölu neysluverðs voru töluverðar í janúar og febrúar í ár. Þær mælingar detta út úr ársverðbólgunni í janúar og febrúar á næsta ári og við það ætti verðbólgan að hjaðna verulega í byrjun árs.
Spáin fyrir næstu mánuði breytist því lítillega frá fyrri spá. Við teljum áfram að íbúðaverð hækki lítillega næstu mánuði, en áður höfðum við gert ráð fyrir að verðið yrði að mestu óbreytt. Á móti hefur bensínverð lækkað meira en við gerðum áður ráð fyrir og áhrif af hækkun flugfargjalda verður minni í desember en við töldum í fyrri spá.
Í janúar togast yfirleitt á hækkanir vegna gjaldskrárhækkana og lækkanir vegna janúarútsala, þó vísitalan hafi yfirleitt lækkað í janúar. Í ár og í fyrra voru undantekningar á því, en vísitala neysluverðs hækkaði töluvert í janúar á þessu ári, eða um 0,85%. Eins og áður segir gerum við ráð fyrir nokkuð minni hækkun næsta janúar, 0,11%. Þar hefur breyting á stuðningi ríkisins við kaup á rafmagnsbílum áhrif til hækkunar. Einnig tekur Hagstofan inn hækkun á lóðamati í reiknaða húsaleigu í janúar sem ýtir spánni upp, auk annarra gjaldskrárhækkana. Þá hefur nýleg veiking á gengi krónunnar einnig nokkur áhrif á spána næstu mánuði. Við teljum einnig að þótt janúarútsölur verði betri en síðustu tvö ár, verði afslættir ekki jafn ríflegir og fyrir faraldur.