Mikil hækkun launavísitölu í janúar - kaupmáttur hefur aldrei verið meiri
Launavísitalan hækkaði um 3,7% milli desember 2021 og janúar 2022 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,3%, sem er eilítið lægri árstaktur en verið hefur síðustu mánuði.
Síðustu tvær áfangahækkanir kjarasamninga komu til framkvæmda 1. janúar 2021 og 2022 og var hækkun launavísitölunnar 3,7% í bæði skiptin. Þó ekki hafi verið um aðrar hækkanir að ræða á árinu samkvæmt kjarasamningum hækkaði launavísitalan um 7,3% innan ársins 2021. Áfangahækkanir vegna kjarasamninga skýra því einungis um helming hækkunar launa á árinu 2021.
Verðbólga í janúar 2022 mældist 5,7% en árshækkun launavísitölunnar um 7,3%. Kaupmáttur launa jókst því um 1,1% milli janúarmánaða 2021 og 2022 þrátt fyrir óvenju mikla verðbólgu. Kaupmáttaraukning launa er því áfram nokkuð stöðug og nokkuð mikil í sögulegu samhengi. Kaupmáttarvísitalan tók stökk upp á við í janúar 2021 og náði þá sögulegu hámarki en minnkaði eilítið á árinu. Sagan endurtekur sig nú og kaupmáttur launa hefur aldrei verið hærri en í janúar 2022.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum milli nóvembermánaða 2020 og 2021 sést að laun á almenna markaðnum hækkuðu áfram mun minna en á þeim opinbera. Launin hækkuðu um 6,5% á almenna markaðnum á þessum tíma og um 10% á þeim opinbera, þar af 9,3% hjá ríkinu og 10,7% hjá sveitarfélögunum.
Milli nóvembermánaða 2020 og 2021 hækkuðu laun áberandi mest í veitinga- og gististarfsemi, eða um 10,3%. Á hinum endanum er fjármála- og vátryggingarstarfsemi með 4,2% hækkun. Á þessu tímabili hækkaði launavísitalan fyrir allan vinnumarkaðinn um 7,5%. Á þessum tölum má glöggt sjá áhrif krónutöluhækkana á launaþróun. Meðaltekjur eru almennt lágar í veitinga- og gististarfsemi og því hækka laun hlutfallslega mikið. Tekjur eru háar í fjármála- og vátryggingarstarfsemi og þar hækka laun því hlutfallslega mun minna.
Þann 28. febrúar nk. birtir Hagstofa Íslands fyrstu niðurstöður þjóðhagsreikninga fyrir árið 2021. Þá mun koma í ljós hversu mikið landsframleiðsla á mann hækkaði á milli áranna 2020 og 2021. Ný spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að landsframleiðslan hafi hækkað um 4,9% í fyrra.
Ætla má að íbúum hafi fjölgað um u.þ.b. 2% milli ára þannig að landsframleiðsla eða hagvöxtur á mann hefur þá aukist um tæp 3%. Samkvæmt kjarasamningum ættu lægstu laun að hækka um kr. 13.000 á mánuði þann 1. maí verði hagvöxtur á mann meiri en 3%, en um kr. 10.500 verði hagvöxtur á mann á bilinu 2,5-3%. Hærri laun myndu hækka um 75% af hækkun lægri launa, eða um kr. 9.750 eða kr. 7.875 á mánuði, miðað við þetta.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Mikil hækkun launavísitölu í janúar - kaupmáttur hefur aldrei verið meiri