Í lok febrúar stóð evran í 141,8 krónum samanborið við 143,2 í lok janúar og Bandaríkjadalur í 126,6 samanborið við 128,4 í lok janúar. Gengisvísitalan lækkaði (krónan styrktist) um 1,0% í febrúar.
Krónan hélt sér að mestu milli 141 og 144 krónum á evru í mánuðinum. Krónan byrjaði mánuðinn rétt undir 144 krónum á hverja evru. Krónan styrktist síðan fyrri hluta mánaðarins, fór lægst í 140,8 krónur evran, en gaf síðan lítillega eftir undir lok mánaðarins.
Velta á gjaldeyrismarkaði var 45,2 ma.kr. (318 m.evra) í mánuðinum og jókst nokkuð milli mánaða. Hlutdeild SÍ í veltu mánaðarins var 9,2 ma.kr. (64 m.evra), eða 20% af heildarveltu.
Seðlabankinn greip fjórum sinnum inn í markaðinn í febrúar. Fyrri hluta mánaðarins greip hann inn í þrisvar og keypti evrur fyrir alls 8 ma.kr. (56 m.evra). Þann 24. febrúar seldi hann síðan evrur fyrir 1,1 ma.kr. (8 m.evra). Nettó kaup SÍ á gjaldeyri í mánuðunum voru 6,8 ma.kr. (48 m.evra).
Næstu mánuði sjáum við ekki fyrir okkur aukið útflæði. Vaxtamunur við evru ætti einnig að styðja við krónuna. Við teljum því líklegra að krónan muni styrkjast frekar en veikjast næstu mánuði.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Krónan styrktist í febrúar, Seðlabankinn bæði keypti og seldi evrur









