Aukinn þjónustuútflutningur skýrist allur af vexti ferðaþjónustu
Brottfarir erlendra ferðamanna voru um 282 þúsund í ágúst, aðeins undir fjöldanum á metárinu 2018 en svipaður fjöldi og árið 2017. Í þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar frá því í apríl gerðum við ráð fyrir 2,1 milljón ferðamönnum, en miðað við þróun síðustu mánuði stefnir í að ferðamenn verði í kringum 2,2 milljónir.
Samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofunnar jókst þjónustuútflutningur á fyrstu tveimur fjórðungum ársins um 21% á að raunvirði. Ferðaþjónustan var enn að komast á skrið eftir faraldurinn á fyrri hluta árs 2022. Árið í ár byrjaði af krafti og ferðamenn í byrjun árs því töluvert fleiri en í fyrra. Það skýrir þennan mikla vöxt í þjónustuútflutningi á fyrstu tveimur fjórðungum ársins, eða 21% aukningu á föstu verðlagi, þar sem annar þjónustuútflutningur stóð nánast í stað yfir sama tímabili.
Erlend kortavelta yfir sumarmánuðina aldrei meiri
Kortavelta ferðamanna yfir sumarmánuðina, skoðuð á föstu gengi, eykst um 13,5% milli ára og hefur aldrei verið meiri. Þrátt fyrir að ferðamenn yfir sumarið hafi verið færri en á metárinu 2018.
Utanlandsferðir Íslendinga færri
Utanlandsferðir Íslendinga í ágúst voru 45 þúsund og eru nokkuð færri en í ágúst í fyrra þegar brottfarir voru 49 þúsund, og einnig færri en árin 2017-2019. Eitthvað hefur því dregið úr utanlandsferðum Íslendinga. Það er einnig í takt við þróun í kortaveltu Íslendinga sem dregist hefur saman síðustu mánuði, og mun hægari vöxt einkaneyslu á öðrum fjórðungi þessa árs en fjórðungana á undan.