Aukinn þjónustuútflutningur skýrist allur af vexti ferðaþjónustu

Brottfarir erlendra ferðamanna voru um 282 þúsund í ágúst, aðeins undir fjöldanum á metárinu 2018 en svipaður fjöldi og árið 2017. Í þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar frá því í apríl gerðum við ráð fyrir 2,1 milljón ferðamönnum, en miðað við þróun síðustu mánuði stefnir í að ferðamenn verði í kringum 2,2 milljónir.
Samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofunnar jókst þjónustuútflutningur á fyrstu tveimur fjórðungum ársins um 21% á að raunvirði. Ferðaþjónustan var enn að komast á skrið eftir faraldurinn á fyrri hluta árs 2022. Árið í ár byrjaði af krafti og ferðamenn í byrjun árs því töluvert fleiri en í fyrra. Það skýrir þennan mikla vöxt í þjónustuútflutningi á fyrstu tveimur fjórðungum ársins, eða 21% aukningu á föstu verðlagi, þar sem annar þjónustuútflutningur stóð nánast í stað yfir sama tímabili.
Erlend kortavelta yfir sumarmánuðina aldrei meiri
Kortavelta ferðamanna yfir sumarmánuðina, skoðuð á föstu gengi, eykst um 13,5% milli ára og hefur aldrei verið meiri. Þrátt fyrir að ferðamenn yfir sumarið hafi verið færri en á metárinu 2018.
Utanlandsferðir Íslendinga færri
Utanlandsferðir Íslendinga í ágúst voru 45 þúsund og eru nokkuð færri en í ágúst í fyrra þegar brottfarir voru 49 þúsund, og einnig færri en árin 2017-2019. Eitthvað hefur því dregið úr utanlandsferðum Íslendinga. Það er einnig í takt við þróun í kortaveltu Íslendinga sem dregist hefur saman síðustu mánuði, og mun hægari vöxt einkaneyslu á öðrum fjórðungi þessa árs en fjórðungana á undan.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








