Í sjálfu sér er ekki hægt að svara því hvort hagstæðara er að taka verðtryggt eða óverðtryggt lán fyrr en að lánstíma liðnum því mjög misjafnt er milli ára hvort lánsformið er hagstæðara. Ef við berum saman kjörvexti Landsbankans á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum sl. 20 ár voru meðalraunvextir á óverðtryggðum lánum 5,45% en meðalraunvextir á verðtryggðum lánum 5,71%. Það hefði því verið örlítið hagstæðara árið 1998 að taka óverðtryggt lán til 20 ára frekar en verðtryggt. Munurinn er á hinn bóginn lítill og ómögulegt hefði verið að spá fyrir um hann.
Það er einnig athyglisvert að skipta þessu 20 ára tímabili upp og skoða fimm ára tímabil í senn. Þá sést að óverðtryggðu lánin voru aðeins hagstæðari á einu þessara tímabila. Samanburðurinn er athyglisverður en segir þó ekki til um hvernig þróunin verður í framtíðinni.
Samanburður lána | Raunvextir |
---|---|
Árin 1998-2002 | |
Óverðtryggð lán | 7,15% |
Verðtryggð lán | 6,88% |
Árin 2003-2007 | |
Óverðtryggð lán | 6,70% |
Verðtryggð lán | 5,92% |
Árin 2008-2012 | |
Óverðtryggð lán | 3,09% |
Verðtryggð lán | 5,78% |
Árin 2013-2017 | |
Óverðtryggð lán | 4,87% |
Verðtryggð lán | 4,25% |
Munur á nafnvöxtum en ekki endilega raunvöxtum
Helsti munurinn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum er að vextir (nafnvextir) óverðtryggðra lána eru hærri en á verðtryggðum lánum. Ástæðan er sú að vaxtastig óverðtryggðra lána gerir ráð fyrir verðbólgu - áætluð verðbólga er með öðrum orðum innifalin í vaxtaprósentu óverðtryggðra lána.
Verðtryggð lán bera lægri nafnvexti en til viðbótar eru reiknaðar verðbætur sem eru jafnháar verðbólgunni. Ef nafnvextir eru 3,5% og verðbólga 2,5% leggjast 2,5% verðbætur ofan á höfuðstólinn. Vextirnir eru síðan reiknaðir af höfuðstólnum og nafnávöxtun verður því rúmlega 6%.
Þar sem verðbætur leggjast við höfuðstólinn eru afborganir af verðtryggðum lánum lægri í upphafi lánstímans en höfuðstóllinn lækkar hægar.
Vextir á óverðtryggðum lánum greiðast á hinn bóginn að fullu í hvert sinn sem þarf að greiða af láninu og leggjast ekki við höfuðstólinn. Af þeim sökum er greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum þyngri í upphafi en lækkar síðan eftir því sem líður á lánstímann.
Fasteignir hækka yfirleitt í takt við launahækkanir
Margir eru smeykir við verðtryggð lán, ekki síst eftir að þau hækkuðu mikið í verðbólguskotinu sem varð í kringum hrunið 2008. Ef verðtryggt lán til 40 ára er slegið inn í reiknivélar, og gert ráð fyrir hefðbundinni íslenskri verðbólgu, sést að heildarafborganir af láninu verða mjög háar ef miðað er við verðlag dagsins í dag.
Það þarf þó að huga að ýmsu öðru. Reynslan sýnir t.d. að fasteignir hafa hækkað álíka mikið og laun. Á meðan hlutfallið af launum sem fer í afborganir og vexti af verðtryggðum lánum sveiflast ekki mikið ættu lántakar ekki að þurfa að hafa miklar áhyggjur. Sá sem þetta ritar keypti t.a.m. parhús fyrir 37 árum á 600.000 krónur en mánaðarlaunin voru þá milli 6-7.000 krónur. Kaupin voru fjármögnuð með verðtryggðu láni, enda ekki hægt að fá óverðtryggð lán til langs tíma árið 1981. Höfuðstóll lánsins hækkaði með verðbólgunni en það gerðu launin og verðmæti hússins líka (en það er auðvitað ekki ávísun á hið sama gerist í framtíðinni).
Kostir og gallar við báðar tegundir
Valið á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána snýst eiginlega um það hvort lánsformið hentar og hugnast fólki betur. Greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum er þyngri og stundum stenst fólk ekki greiðslumat nema gert sé ráð fyrir verðtryggðu láni. Óverðtryggð lán greiðast hraðar niður og eignamyndun lántaka er því meiri í upphafi lánstímans. Ef markmiðið er að greiða lánið niður sem hraðast er líka hægt að greiða aukalega inn á verðtryggt lán eða hafa lánstímann styttri.
Bæði lánsformin hafa kosti og galla. Því hafa margir farið þá leið að fara bil beggja með því að skipta lánsfjárhæðinni upp og hafa annan hlutann verðtryggðan og hinn óverðtryggðan. Einnig er gott að skoða hvort vextir séu fastir annað hvort að hluta eða allan lánstímann. Það getur verið gott að geta fest vexti, sérstaklega ef lántaki gerir ráð fyrir að vextir muni hækka.
Samanburður á ólíkum lánsformum
Hægt er að bera saman óverðtryggð, verðtryggð og blönduð íbúðalán í reiknivélum sem m.a. er að finna á vef Landsbankans.