Click to Pay: Ný og öruggari leið til að greiða á netinu

Nú geta viðskiptavinir Landsbankans tengt greiðslukortin sín við Click to Pay, nýja og öruggari greiðslulausn sem netverslanir eru óðum að taka í notkun.
Click to Pay er sameiginlegt verkefni EMVCo sem er samstarfsvettvangur nokkurra kortasamsteypa á borð við Visa, Mastercard og American Express. Markmiðið er að gera netgreiðslur öruggari, einfaldari og samræma greiðsluleiðir.
Hvernig virkar Click to Pay?
Þau sem nota Click to Pay þurfa ekki lengur að slá inn kortanúmer, öryggisnúmer (CVV) eða gildistíma korta þegar greitt er á netinu.
- Þegar þú hefur skráð kortin þín í Click to Pay getur þú valið þjónustuna sem greiðslumáta í netverslunum.
- Svo slærðu inn símanúmerið eða netfangið sem þú hefur tengt við kort.
- Þú færð síðan beiðni um auðkenningu í SMSi eða tölvupósti.
- Þá sérðu kortin sem þú hefur skráð og velur það sem þú vilt nota, staðfestir greiðsluna og klárar kaupin.
Greiðslur eru gerðar með sama hætti óháð kortategund, útgefanda eða því hvort notast er við tæki með Android, iOS (Apple) eða Windows stýrikerfi.
Ef netverslun býður upp á Click to Pay birtist merki lausnarinnar á greiðslusíðu.

Helsti ávinningur fyrir viðskiptavini
- Aukið öryggi. Kortaupplýsingum er ekki deilt með söluaðilum og þær eru varðar með svokallaðri tókatækni.
- Hraðari og einfaldari greiðslur. Þú skráir kortið einu sinni inn í lausnina og greiðir síðan með einum smelli.
- Samræmd greiðsluleið. Greiðsluferlið í gegnum Click to Pay er eins hjá öllum söluaðilum sem styðja lausnina.
- Einfaldari greiðslur. Greiðslur verða fljótlegri, fyrirhafnarminni og villuhætta minnkar.









