Landsbankinn selur hlut sinn í Greiðslumiðlun Íslands ehf.

Landsbankinn hf., Bál ehf. og Solvent ehf. hafa selt Greiðslumiðlun Íslands ehf. (GMÍ) í opnu söluferli, sem hófst í nóvember 2024, til Símans hf.
Eignarhlutur Landsbankans var 47,9% og samanlagður eignarhlutur Báls ehf. og Solvent ehf. var 52,1%.
Heildarvirði GMÍ í viðskiptunum nemur 3.500 milljónum króna og eru viðskiptin háð hefðbundnum fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
GMÍ sérhæfir sig í lausnum sem tengjast greiðslum, innheimtu, kröfustýringu og lánaumsýslu.
Söluferlið fór fram í samræmi við stefnu Landsbankans um sölu eigna og var opið öllum fjárfestum sem uppfylltu skilyrði seljenda fyrir þátttöku í söluferlinu.
Ráðgjafar seljenda voru fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans, ARMA Advisory, og BBA // Fjeldco. LOGOS lögmannsþjónusta veitti kaupanda lögfræðiráðgjöf í viðskiptunum.









