Vegna dóms Hæstaréttar í vaxtamáli gegn Íslandsbanka

Þann 14. október 2025 kvað Hæstiréttur upp dóm í máli sem varðar skilmála um breytilega vexti í óverðtryggðu íbúðaláni Íslandsbanka.
Hæstiréttur á eftir að dæma í máli sem var höfðað gegn Landsbankanum og varðar sambærileg álitaefni. Málin eru þó ekki eins að öllu leyti, m.a. að því er varðar orðalag skilmálans um breytilega vexti, málsatvik og málsástæður. Á þessu stigi er það mat Landsbankans að þörf sé á umfjöllun og niðurstöðu Hæstaréttar um ákveðin atriði í framangreindu máli bankans til þess að unnt sé að taka afstöðu til vaxtabreytinga sem gerðar hafa verið á sambærilegum lánum bankans.
Umsóknir um ný íbúðalán
Þrátt fyrir þetta er það mat bankans að dómur Hæstaréttar gefi tilefni til þess að fara yfir skilmála um breytilega vexti í nýjum íbúðalánum. Uppfært framboð bankans á nýjum íbúðalánum verður kynnt á næstu dögum.
Við tökum á móti umsóknum um ný íbúðalán á vefnum og í appinu. Í kjölfarið mun ráðgjafi hafa samband og fara yfir næstu skref.
Í árshlutareikningi samstæðu Landsbankans fyrir annan ársfjórðung 2025 eru veittar upplýsingar um bráðabirgðamat bankans á mögulegum fjárhagslegum áhrifum þess á bankann ef endanleg dómsniðurstaða í málinu yrði óhagstæð bankanum. Bankinn mun yfirfara matið í uppgjöri þriðja ársfjórðungs, sem verður birt 23. október næstkomandi.
Fréttin hefur verið uppfærð.









