Úthlutað úr Hvatasjóði Landsbankans

Dana Zaher El Deen K. Al Hennaw og Diana Al Barouki hljóta í ár styrk úr Hvatasjóði Landsbankans til grunnnáms við Háskólann í Reykjavík skólaárið 2025-2026.
Viðurkenning og styrkurinn voru afhent við hátíðlega athöfn í HR á föstudaginn, 11. september.
Sjóðurinn styrkir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku og náð hafa góðum árangri í námi í framhaldsskóla. Við val á styrkhöfum er tekið mið af námsárangri auk fjölbreytileika og þátttöku nemenda á öðrum sviðum, t.d. íþróttum, tómstundastarfi og sjálfboðavinnu.
Sigríður Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri Landsbankans, afhenti viðurkenninguna fyrir hönd bankans en Dana Zaher hlýtur styrk til náms í lögfræði og Diana í tölvunarfræði.
Samstarf Landsbankans og HR, sem og afhending styrkja úr Hvatasjóði, hófst árið 2023. Markmið sjóðsins er að stuðla að jöfnum aðgangi allra að góðri menntun. Með því að styrkja nemendur til að hefja grunnnám hefur sjóðurinn skapað raunveruleg tækifæri fyrir nemendur sem hafa íslensku sem annað mál.
Við óskum styrkþegum til hamingju með árangurinn og óskum þeim góðs gengis.










