Listakonur í Landsbankanum - sýning og fleiri verk eftir konur á listaverkavefnum

Á nýrri sýningu sem opnaði í Reykjastræti 6 á Menningarnótt er sjónum beint að listaverkum í eigu bankans sem eru eftir konur. Við opnuðum einnig nýjan hluta á listaverkavef bankans þar sem birt eru um 90 verk eftir konur.
Í safneign Landsbankans eru fjölmörg listaverk sem teljast til þjóðargersema og þar af eru mörg eftir konur. Í tilefni Kvennaárs 2025 var ákveðið að setja upp sýningu með slíkum verkum. Sigrún Inga Hrólfsdóttir, myndlistarkona, var sýningarstjóri. Verkin eru til sýnis á jarðhæð Reykjastrætis 6 sem er opin alla virka daga á milli kl. 9-17. Sýningin mun standa út árið 2025.
Um 90 verk eftir konur á listaverkavefnum
Árið 2009 lét menntamálaráðuneytið gera listfræðilegt mat á listaverkasafni bankans. Lagt var til að verk í flokki I yrðu þjóðareign, verkum í flokki II yrði ekki ráðstafað án samráðs við Listasafn Íslands og verk í flokki III yrðu boðin að láni til menningarstofnana. Um 90 verk eftir konur sem falla undir þessa flokka eru birt á listaverkavefnum. Með því viljum við auka aðgengi að listaverkunum og gera sem flestum kleift að njóta þeirra.
Létu hindranir ekki stöðva sig
Í grein á listaverkavefnum fjallar Sigrún Inga Hrólfsdóttir um listakonur. Þar bendir hún m.a. á að í samtíma okkar sé staða kvenna innan lista sterkari en nokkru sinni fyrr, en þó sé það svo að saga margra listakvenna fortíðarinnar hafi verið að falla í gleymsku. „Á undanförnum árum hefur orðið mikil vakning í því að draga verk þeirra fram í dagsljósið, í viðleitni til þess að rétta þennan hlut. Þessi sýning er á sinn hátt liður í þessu endurliti sem hefur veitt nýja og dýpri innsýn í stöðu kvenna og varpað nýju ljósi á verk þeirra. Þrátt fyrir ýmsar hindranir létu þær ekki stöðva sig og buðu fyrir fram mótuðum hugmyndum um hlutverk kynjanna birginn. Þannig hafa þær allar átt sinn þátt í að opna heiminn fyrir þeim sem á eftir komu.“









