Úthlutað úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans

Tíu atriði hlutu styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans vegna Gleðigöngunnar 2025. Gleðigangan, sem gengin verður laugardaginn 9. ágúst nk., er hápunktur Hinsegin daga og verður hún nú gengin í 23. skipti.
Veittir voru styrkir fyrir alls 1.500.000 kr. og var hver styrkur á bilinu 50–275.000 krónur. Hæsta styrkinn hlaut að þessu sinni Hinsegin félagsmiðstöð Samtakanna '78 og Tjarnarinnar, fyrir metnaðarfulla og vel útfærða hugmynd sem dómnefnd taldi bæði skapandi og samfélagslega mikilvæga. Í umsögn nefndarinnar kemur fram að „þetta sé framtíðin okkar sem um ræðir“ og þar er jafn framt bent á að „aldrei hafi verið jafn nauðsynlegt fyrir hinsegin ungmenni að fá að vera sýnileg og stolt, þegar heimurinn og samfélagið eru að reyna ýta okkur öllum aftur í skápinn“.
Eftirfarandi atriði hlutu styrki úr Gleðigöngupottinum 2025
- Asian group
- BANGSAFÉLAGIÐ: EINING í FJÖLBREYTILEIKA
- BDSM á Íslandi
- Hinsegin félagsmiðstöð S78 og Tjarnarinnar
- Hinsegin Fjölskyldur
- Hinsegin kórinn
- HIV Ísland
- Öldungadeildin
- Samtökin '78
- Trans Ísland
Gleðigöngupotturinn er samvinnuverkefni Landsbankans og Hinsegin daga en bankinn hefur verið stoltur bakhjarl Hinsegin daga frá upphafi. Auglýst var eftir umsóknum í júní og styrkþegar voru valdir af dómnefnd sem skipuð var af Michael Ryan, Önnu Eir Guðfinnudóttur, Örnu Magneu Danks og Torfa Tómassyni.
Við óskum styrkþegunum til hamingju og hlökkum til að fylgjast með Gleðigöngunni í ár!









