Úrræði að renna út hjá mörgum - viðbótarlífeyrissparnaður og fyrstu kaup

Þau sem kaupa sína fyrstu fasteign geta notað viðbótarlífeyrissparnað í 10 ár til að greiða skattfrjálst inn á íbúðalánið sitt. Þar sem nú eru rúmlega 10 ár liðin frá því lög voru fyrst sett um þetta úrræði er það að renna út hjá sumum, hafi það ekki þegar gerst.
Hafa þarf í hug að þau sem ekki völdu sérstakt tímabil féllu sjálfkrafa undir tímabilið 1. júlí 2014 til 1. júlí 2024.
Hafa þarf samband við Skattinn
Þau sem vilja halda áfram að nýta viðbótarlífeyrissparnað til að greiða inn á íbúðalán, eftir að 10 ára tímabilinu lýkur, þurfa að sækja sérstaklega um það.
Til að geta sótt um það þarf fyrst að hafa samband við Skattinn og óska eftir að úrræði vegna fyrstu kaupa verði fellt úr gildi. Hægt er að hringja í síma 442-1000 eða senda tölvupóst á adstod@leidretting.is.
Eftir það er sótt um á leidretting.is
Þegar Skatturinn hefur fellt niður fyrstu kaupa úrræðið, er hægt að fara inn á www.leidretting.is og sækja um að viðbótarlífeyrissparnaði verði ráðstafað inn á íbúðalán. Um er að ræða svipað úrræði og vegna fyrstu kaupa, nema hvað hámarksfjárhæð á ári er 750.000 krónur fyrir hjón eða samskattaða en í úrræði vegna fyrstu kaupa er hámarksfjárhæð á ári 500.000 krónur á hvern einstakling og 1 milljón króna á ári fyrir hjón og samskattaða.
Úrræði vegna fyrstu kaupa gefur því kost á meiri innborgun en almenna úrræðið.









