Vel heppnaður fundur um hvernig hægt er að finna milljón

Hátt í 200 manns sóttu fræðslufund um fjármál sem haldinn var í Landsbankanum Reykjastræti þar sem rætt var um hvernig hægt er að finna milljón með því að draga úr útgjöldum eða auka tekjur.
Hrefna Björk Sverrisdóttir, annar umsjónarmaður sjónvarpsþáttanna Viltu finna milljón?, sem sýndir eru á Stöð 2, fjallaði um góðar aðferðir til að taka heimilisfjármálin í gegn. Hörður Ingi Gunnarsson og Venný Hönnudóttir, sigurvegarar úr síðustu þáttaröð, sögðu frá því hvernig þeim tókst að spara margar milljónir og hvernig þau standa í dag. Kjartan Ágúst Breiðdal, sérfræðingur á Einstaklingssviði Landsbankans fór yfir hvernig hægt er að stilla íbúðalánin af á hagstæðan hátt og ýmsar sparnaðarleiðir. Í lokin fengu frummælendur fjölda spurninga úr sal sem snerust um íbúðalán, sparnaðarleiðir og hvers vegna sumum gengur illa að rétta heimilisbókhaldið af.
Mikilvægt að setja sér skýra stefnu
Hrefna, sem einnig er höfundur bókarinnar Viltu finna milljón?, ræddi um að kveikjan að bókarskrifunum hefði verið sú að henni hefði þótt vanta gott efni og umfjöllun um hvernig fólk gæti nýtt peningana sína betur. Hún hefði farið að kynna sér málið og komist að því að miklir fjármunir færu til spillis á hverju ári vegna vankunnáttu í fjármálum. Algengt væri að fólk eyddi einni milljón króna í hluti eða kostnað sem auðveldlega væri hægt að komast hjá. Hún sagði frá mikilvægi þess að breyta hugarfarinu en tók jafnframt fram að það væri mjög misjafnt eftir fólki hvers konar nálgun virki best. Mikilvægt væri setja sér skýra stefnu því þannig væri mun auðveldara að ná markmiðunum.
Önnur þáttaröð Viltu finna milljón? er nú í sýningu á Stöð 2. Í þáttunum keppast þrjú pör við að taka fjármálin sín í gegn auk þess að takast á við ýmsar áskoranir þegar kemur að neyslu. Þau sem ná bestum árangri fá eina milljón króna í vinning. Þá hafa Hrefna og Arnar Þór Ólafsson hrint úr vör nýju hlaðvarpi með sama titli sem er aðgengilegt á öllum hlaðvarpsveitum.
Greiða 500.000 kr. inn á íbúðalánið á mánuði

Venný Hönnudóttir og Hörður Ingi Gunnarsson, sigurvegarar fyrstu þáttaraðarinnar, eru reglulega spurð að því hvernig þeim gangi að halda útgjöldunum í skefjum. Eins og fram kom á fundinum, þá gengur það ljómandi vel! Þau hafa greitt 500.000 krónur inn á íbúðalánið sitt í mánuði og þannig náð að lækka það um 10 milljónir króna. Þau voru á góðri leið með að borga það upp að fullu en hafa nú fest kaup á einbýlishúsi (sem þarfnast ástar og umhyggju) og gera því ekki lengur ráð fyrir að vera skuldlaus eftir 3-4 ár heldur líklega eftir 10 ár eða svo. Hörður ræddi um kosti þess að greiða húsnæðislánið niður en það væri einn besti sparnaður sem völ væri á. Venný ræddi m.a. um kosti þess að skoða föstu útgjöldin reglulega og reyna að lækka þau. Í þáttaröðinni kom fram að þau náðu að lækka matarútgjöldin fyrir sig og börnin tvö niður í 40.000 krónur á mánuði. Þau eru enn mjög meðvituð um hvað þau eyða í mat og drykk en nú séu mánaðarleg matarútgjöld nær 100.000 krónum á mánuði. Þau sögðu þátttökuna í Viltu finna milljón? hafa breytt miklu og að ef ekki hefði verið fyrir keppnina hefðu þau ekki náð að draga nægilega úr útgjöldum til að festa kaup á einbýlishúsinu.

Kjartan Ágúst Breiðdal, sérfræðingur á Einstaklingssviði, fór að lokum stuttlega yfir ýmsar leiðir til að draga úr útgjöldum og spara. Hann fjallaði m.a. um mikilvægi þess að fólk fylgist vel með kjörunum á íbúðalánunum sínum. Með því að endurfjármagna, breyta lánasamsetningu og fleira væri hægt að spara umtalsverðar fjárhæðir. Hann ræddi líka um leiðir til að ávaxta sparifé, mikilvægi viðbótarlífeyrissparnaðar og fleira.
Við þökkum þeim Hrefnu Björk, Venný, Herði og Kjartani fyrir áhugaverð erindi og gestum kærlega fyrir komuna.
























