Landsbankinn lauk í dag sölu verðbréfa sem telja til viðbótar eiginfjárþáttar 1 (e. Additional Tier 1 securities (AT1)), að fjárhæð 100 milljónir bandaríkjadala. Um er að ræða fyrstu AT1 útgáfu Landsbankans og voru bréfin seld til fjárfesta á föstum 8,125% vöxtum.
Heildareftirspurn nam rúmlega 400 milljónum bandaríkjadala frá yfir 70 fjárfestum frá Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu.
Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Með útgáfunni aukum við enn hagkvæmni í fjármagnsskipan bankans samhliða því að styrkja eiginfjárgrunninn og auka fjölbreytni í fjármögnun bankans. Góð kjör og mikil eftirspurn eftir útgáfunni í dag endurspegla jafnframt gott aðgengi bankans að erlendum mörkuðum.“
Verðbréfin eru án lokagjalddaga en eru innkallanleg af hálfu útgefanda að 5,5 árum liðnum og eru víkjandi gagnvart öllum öðrum kröfum, að hlutafé undanskildu. Vænt lánshæfismat AT1 verðbréfanna er BB frá S&P Global Ratings. Stefnt er að því að verðbréfin verði tekin til viðskipta í írsku kauphöllinni þann 18. febrúar 2025.
Umsjónaraðilar voru Bank of America, Citibank og JP Morgan.









