Niðurstaða fjármálaeftirlitsins varðandi virkan eignarhlut Landsbankans í TM tryggingum
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur birt mat sitt um að Landsbankinn sé hæfur til að fara með virkan eignarhlut í TM tryggingum hf.
Landsbankinn undirritaði samning um kaup á öllu hlutafé í TM í maí 2024 og er markmiðið með kaupunum að bjóða viðskiptavinum fjölbreyttari þjónustu, fjölga tekjustoðum og auka verðmæti bankans fyrir hluthafa.
Kaup Landsbankans á TM eru háð fyrirvara um samþykki fjármálaeftirlits Seðlabankans og Samkeppniseftirlitsins. Samþykki fjármálaeftirlitsins liggur nú fyrir og formleg málsmeðferð hjá Samkeppniseftirlitinu er hafin.
Fjármálaeftirlitið telur Landsbankann einnig hæfan til að fara með virkan eignarhlut í TM líftryggingum hf. og Íslenskri endurtryggingu hf. sem eru dótturfélög TM trygginga hf.