Elvar Þór Karlsson nýr forstöðumaður Fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans
Elvar Þór Karlsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans og mun hefja störf í vetur.
Elvar hefur víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Frá árinu 2018 starfaði hann sem verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf hjá Íslandsbanka þar sem hann kom að mörgum af helstu verkefnum fyrirtækjaráðgjafar, þar á meðal kaupa- og söluferli fyrirtækja, samrunum, fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og fjármögnun þeirra. Þar áður stundaði Elvar eigin fyrirtækjarekstur.
Elvar lauk BSc-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2017 og lauk löggildingu í verðbréfamiðlun sama ár. Hann lauk síðan MCF-gráðu í fjármálum fyrirtækja árið 2021 frá Háskólanum í Reykjavík.
Við bjóðum Elvar Þór velkominn til starfa.
Um Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans
Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans veitir yfirgripsmikla og vandaða ráðgjöf um kaup, sölu og samruna fyrirtækja, sem og um skráningu á verðbréfamarkað og fjárhagslega endurskipulagningu. Meðal verkefna undanfarið er skráning Amaroq Minerals á aðalmarkað Kauphallar Íslands, umsjón með almennu útboði Ísfélagsins hf., sala á skuldabréfum og hlutabréfum í lokuðu útboði ásamt fjármögnun og tvískráningu Alvotech á aðalmarkað Kauphallarinnar, hlutafjáraukning First Water og ráðgjöf vegna fjármögnunar vegna kaupa Ardian á Mílu.