Listaverkavefur Landsbankans opnaður
Landsbankinn á mikinn fjölda listaverka sem mörg teljast vera lykilverk í íslenskri myndlistarsögu og brot af því besta sem íslensk myndlist hefur upp á að bjóða. Bankinn á eitt stærsta safnið af Kjarvalsverkum, gott safn verka eftir frumkvöðla í íslenskri myndlist en einnig mikið af verkum eftir helstu abstraktmálara þjóðarinnar. Tæplega 200 listaverk eru nú í Reykjastræti 6. Önnur eru ýmist í útibúum bankans um allt land eða í geymslum. Þá lánar bankinn reglulega verk úr safninu á myndlistarsýningar.
Á vefnum er rætt við Aðalstein Ingólfsson listfræðing sem veitti ráðgjöf við val og staðsetningu á listaverkunum og fjallað er um sögu og samsetningu listasafnsins. Vefinn gerði Sara Karen Þórisdóttir, vefritstjóri hjá Landsbankanum, en gerð vefsins er hluti af lokaverkefni hennar í meistaranámi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans:
„Það var ljóst út frá aðsókninni í listaverkagöngurnar bæði um Austurstræti 11 og svo hér í Reykjastræti 6 að áhuginn á listaverkunum bankans er mikill. Listaverkasafn Landsbankans er mikilvæg eign og við leggjum okkur fram við að hlúa að henni og viljum að sem flestir fái notið verkanna. Við vorum því mjög hrifin af framtakinu þegar starfsmaður vefdeildar, Sara Karen, kom til okkar með þá hugmynd að þróa listaverkavef sem hluta af mastersverkefni sínu og við vonum að listaverkaunnendur nær og fjær njóti sýningarinnar.“