Grindvíkingar halda óbreyttum vaxtakjörum við kaup á nýrri íbúð
Samkvæmt frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi geta Grindvíkingar selt félagi í eigu ríkisins íbúðarhúsnæði sitt í Grindavík. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að hægt sé að flytja lán sem hvíla á heimilum í Grindavík yfir á nýja fasteign, þ.e. veðflutningar eru ekki heimilaðir.
Sömu vaxtakjör á jafnháu láni á föstum vöxtum
Ef viðskiptavinur er með íbúðalán hjá Landsbankanum vegna heimilis í Grindavík og hefur fest vextina á láninu til þriggja eða fimm ára, þá fær hann sömu vaxtakjör á jafnháu nýju íbúðaláni til kaupa á nýrri fasteign sé lánshlutfall (veðhlutfall) sambærilegt og á fyrri fasteign. Vaxtakjörin haldast óbreytt þann tíma sem eftir er af fastvaxtatímabilinu en síðan losna vextirnir, í samræmi við upphaflega lánaskilmála.
Lántökugjöld hjá fyrstu kaupendum felld niður
Þá hefur Landsbankinn ákveðið að Grindvíkingar, sem höfðu keypt sér sína fyrstu íbúð í bænum á tveggja ára tímabilinu áður en Grindavík var rýmd 10. nóvember 2023, fái felld niður lántökugjöld vegna nýrra íbúðalána líkt og um fyrstu kaup væri að ræða.
Geta fengið allt að 85% lán
Við vekjum líka athygli á að allir sem eiga íbúðarhúsnæði í Grindavík geta fengið íbúðalán fyrir allt að 85% af kaupverði íbúðar, líkt og gildir um fyrstu kaupendur. Hámark greiðslubyrðar má vera allt að 40% af ráðstöfunartekjum, í samræmi við yfirlýsingu fjármálastöðuleikanefndar Seðlabanka Íslands.
Við aðstoðum gjarnan
Við mælum með að Grindvíkingar sem eru að velta fyrir sér hvað þau eigi að gera í fasteignamálum hafi samband við okkur til að fara yfir þá möguleika sem eru í boði varðandi íbúðalán. Það er auðvelt að panta tíma á vef bankans til að spjalla við okkur í síma, á fjarfundi eða á staðnum.
Nánari upplýsingar eru inni á upplýsingasíðu okkar fyrir Grindvíkinga.