Fyrirtækjaráðgjöf bankans ráðgjafi í vel heppnuðu hlutafjárútboði Amaroq
Amaroq Minerals Ltd., félag sem starfar á sviði námuvinnslu og er handhafi réttinda til leitar að verðmætum málmum í jörðu á Suður-Grænlandi, lauk í gær vel heppnuðu hlutafjárútboði að andvirði 7,6 milljarða íslenskra króna.
Söluandvirði útboðsins, sem var stækkað vegna rúmlega tvöfaldrar umframeftirspurnar, verður meðal annars varið í frekari rannsóknir til að hraða áformaðri gullvinnslu við Nalunaq-námu félagsins í Suður-Grænlandi, frekari rannsóknir á eignum félagsins í Vagar og Nanoq, sem og í frekari verkefni félagsins tengdu Gardaq.
Núverandi og nýjum hluthöfum verður úthlutað alls 62.724.758 nýjum hlutum á genginu 127 krónur á hlut, sem nemur u.þ.b. 19% af útgefnu hlutafé félagsins eftir hækkun.
Landsbankinn hf. og Fossar fjárfestingarbanki hf. voru sameiginlegir söluráðgjafar Amaroq í útboðinu og Stifel Nicolaus Europe Limited var söluaðili í Bretlandi. Landsbankinn er umsjónaraðili töku nýju hlutanna til viðskipta.
Landsbankinn óskar Amaroq til hamingju með útboðið og þakkar ánægjulegt samstarf.