Landsbankinn hefur samstarf við Íslenska sjávarklasann
Íslenski sjávarklasinn og Landsbankinn hafa hafið samstarf sem miðar að því að styðja við aukna verðmætasköpun í bláa hagkerfinu. Áhersla verður lögð á stuðning við nýsköpunarfyrirtæki sem vinna að lausnum á þeim áskorunum sem rótgrónari fyrirtæki standa frammi fyrir, auk þess að styðja við frumkvöðla sem vinna verðmæti úr því sem áður var fargað.
Landsbankinn mun styðja sérstaklega við nýtt verkefni sem Sjávarklasinn er að ýta úr vör, Verbúð Sjávarklasans. Verkefninu er ætlað að efla tengsl og samvinnu rótgróinna fyrirtækja í bláa hagkerfinu við frumkvöðlafyrirtæki og rannsóknar- og þróunarteymi úr háskólasamfélaginu með það fyrir augum að leysa áskoranir, auka nýtingu og efla nýsköpun.
Landsbankinn kemur að verkefninu sem styrktaraðili, auk þess sem sjávarútvegsteymi bankans mun styðja við frumkvöðla með handleiðslu og ráðgjöf.
Verkefnið er hugsað sem langtímastuðningur við öfluga frumkvöðla og hefst á því að rótgrónari fyrirtæki í samstarfsneti Sjávarklasans leggja til skilgreindar áskoranir sem þau standa frammi. Klasinn mun síðan auglýsa eftir einstaklingum eða teymum sem hafa þróað lausnir á þessum áskorunum. Lausnirnar verða metnar í samstarfi við fyrirtækin og álitlegustu teymin komast áfram í tveggja daga hakkaþon sem haldið verður á vormánuðum í samstarfi við háskóla, nýsköpunar- og iðnaðarráðuneytið.
Sigurvegarar hakkaþonsins komast svo áfram í Verbúðina en þar býðst þeim langtímastuðningur í frumkvöðlastarfinu og lausnir þeirra verða þróaðar í samstarfi við fyrirtækin, mentora og starfsfólk Sjávarklasans.
Með þessu viljum við skapa vettvang þar sem unnið er með markvissum hætti að því að sannreyna og prófa lausnir frumkvöðla í raunheimum. Eins stuðlum við að því að lausnir sem verið er að þróa í nýsköpunarumhverfinu þjóni atvinnulífinu. Að auki verða til mikilvægar tengingar og samtal sem ætlað er að ýta undir aukna verðmætasköpun í víðum skilningi.
Á myndinni eru Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri Íslenska Sjávarklasans, og Haukur Ómarsson, forstöðumaður sjávarútvegsteymis Landsbankans.