Fjármálaeftirlitið hefur lokið athugun á framkvæmd Landsbankans í útboði á eignarhlutum í Íslandsbanka
Í apríl 2022 hóf fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands athugun á framkvæmd Landsbankans í útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka sem fram fór í mars 2022.
Athugunin laut meðal annars að hlutverki Landsbankans í söluferlinu, samskiptum við Bankasýslu ríkisins, framkvæmd útboðsins, flokkun viðskiptavina, skráningu og varðveislu símtala og annarra rafrænna samskipta, upplýsingum um ráðstafanir vegna hagsmunaárekstra og hvort bankinn hafi framkvæmt markaðsþreifingar í aðdraganda útboðsins.
Fjármálaeftirlitið hefur nú lokið athugun sinni. Það er niðurstaða eftirlitsins að mat á verðgildi fjármálagerninga og tímamark flokkunar í tengslum við flokkun fjögurra viðskiptavina sem fagfjárfesta hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 54. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Í niðurstöðu fjármálaeftirlitsins eru ekki gerðar athugasemdir við aðra þætti í framkvæmd bankans í útboðinu. Fram kemur að ekki var talið tilefni til að beita viðurlögum vegna niðurstöðunnar og að Landsbankinn hefur þegar gert úrbætur á þeim atriðum sem hún tekur til.
Nálgast má gagnsæistilkynningu um niðurstöðu fjármálaeftirlitsins á vef Seðlabanka Íslands.