Viðvörun vegna tilrauna til netsvika
Við vörum við svikatölvupóstum þar sem fólki er sagt að það þurfi að endurnýja eða staðfesta auðkenni til að fá aðgang að stafrænni þjónustu bankans. Við ítrekum að bankinn sendir aldrei tölvupóst eða skilaboð með hlekk inn á innskráningarsíðu netbanka eða appsins.
Borið hefur á svikatilraunum undanfarið sem byggjast á því að fólk fær falska tölvupósta eða SMS. Oft er því haldið fram að endurnýja þurfi skráningarupplýsingar og fólk beðið um að smella á hlekk til að laga skráninguna. Hlekkurinn leiðir á svikasíðu þar sem fólk er beðið um að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. Með þessu eru svikararnir að reyna að fá aðgang að netbankanum eða appinu þínu.
Við hvetjum fólk til að taka öllum svona skilaboðum með miklum fyrirvara og meðal annars skoða frá hvaða netfangi eða símanúmeri skilaboðin koma.
Um helgina voru sendir tölvupóstar sem voru ranglega sagðir koma frá bankanum, t.d. frá netfanginu „hotline@sctrade.com“ og hlekkirnir vísuðu á síðurnar „infosetting.com“ eða „loghelperis.com“. Hvorki netfangið né vefsíðan er á vegum bankans, Island.is eða Auðkennis, sem rekur rafræn skilríki.
Sterkasta vísbendingin um svik er þó þessi: Bankinn sendir aldrei frá sér skilaboð með hlekk yfir á innskráningarsíðu netbanka eða appsins!
Við bendum á hagnýtar upplýsingar um netöryggi hér á Umræðunni.