Frábær HönnunarMars að baki
Fjöldi fólks lagði leið sína í nýtt hús Landsbankans við Reykjastræti í liðinni viku til að sækja þrjá viðburði bankans í samstarfi við HönnunarMars.
Viðburðirnir voru vel heppnaðir og merkja mátti mikinn áhuga á erindum sem og nýju húsnæði bankans. Landsbankinn þakkar gestum fyrir frábærar undirtektir og HönnunarMars fyrir samstarfið.
Á fimmtudaginn fór málstofan Fjárfestum í hönnun fram í miðrými hússins. Málstofan var byggð á örerindum og pallborðsumræðum um fjármögnun hönnunar, tækifærin sem felast í að fjárfesta í hönnun og hvers vegna það er mikilvægt. Anders Färdig, framkvæmdastjóri Design House Stockholm, Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Tulipop, Helga Valfells, Crowberry Capital, Ragna Margrét Guðmundsdóttir, Pikkoló og Sigurður Þorsteinsson, aðalhönnuður hjá Design Group Italia héldu erindi og fundinum stýrði Snorri Másson, fjölmiðlamaður.
Á föstudaginn var fyrirlesturinn Byggt til framtíðar - Hönnun og hugmyndafræði í nýju húsi Landsbankans haldinn í Reykjastræti.
Halldóra Vífilsdóttir, framkvæmdastjóri Nordic Office of Architecture og verkefnastjóri nýbyggingar Landsbankans, Helgi Mar Hallgrímsson, arkitekt hjá Nordic Office of Architecture og Jonas Toft Lehman, arkitekt hjá C.F. Møller fóru yfir metnaðarfull markmið sem sett voru við hönnun hússins um nútímalegt vinnuumhverfi, sjálfbærni, birtu, flæði og hlutverk í nærumhverfi sem miðað var við á öllum stigum hönnunar og við byggingu hússins.
Á laugardaginn tók Halldóra síðan á móti fjórum hópum gesta og bauð upp á leiðsögn um Reykjastræti. Ásamt því að kynna hugmyndafræði hönnunar hússins var farið yfir starfsaðstæður fyrir verkefnamiðað vinnurými.