Óskum Amaroq Minerals til hamingju með skráningu á First North á Íslandi
Amaroq Minerals Ltd. var skráð á First North markaðinn í gær, 1. nóvember. Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans aðstoðaði félagið við hlutafjáraukningu þess í aðdraganda skráningar og þakkar félaginu kærlega fyrir ánægjulegt samstarf.
Auðlindafyrirtækið Amaroq Minerals var stofnað árið 2017. Megináhersla þess er á að finna gull og aðra verðmæta málma á Suður-Grænlandi og stefnir félagið á gullvinnslu í Nalunaq-gullnámunni á næsta ári. Auk þess hefur félagið víðtækar rannsóknar- og vinnsluheimildir á Grænlandi þar sem finna má gull, kopar, nikkel og aðra málma sem eru nauðsynlegir fyrir orkuskipti framtíðarinnar. Í tilkynningu félagsins kemur fram að eitt af meginmarkmiðum Amaroq Minerals sé að byggja upp sjálfbæra námuvinnslu í samstarfi við íbúa Grænlands þar sem hefðir og menning samfélagsins verða höfð í heiðri.