Vel heppnaður fundur um netöryggi fyrirtækja
Ríflega 120 manns sóttu fræðslufund um netöryggismál fyrirtækja sem við héldum miðvikudaginn 12. október. Fundargestir voru ýmist mættir á staðinn eða fylgdust með beinu streymi.
Á fundinum fjallaði Arinbjörn Ólafsson, framkvæmdastjóri Upplýsingatæknisviðs Landsbankans, um áherslur bankans í netöryggismálum. Hann sagði of algengt að umræður og umfjöllun um netöryggismál væri bundin við tæknifólk. Málefnið væri síður en svo einkamál þeirra og varðaði allt starfsfólk. Hjá Landsbankanum væru þrjár stoðir undir netöryggismálum: gott og vel þjálfað starfsfólk, öflug umgjörð upplýsingaöryggis og tæknilegar varnir.
Dóra Gunnarsdóttir, viðskiptastjóri á Fyrirtækjasviði Landsbankans.
Arinbjörn Ólafsson, framkvæmdastjóri Upplýsingatæknisviðs Landsbankans.
Reynslusögur og hagnýt ráð
Þeir Hákon L. Aakerlund, hópstjóri í öryggismálum, og Ægir Þórðarson, forstöðumaður Kerfisrekstrar hjá bankanum fjölluðu um hvernig fyrirtæki geta varið sig, sögðu reynslusögur og gáfu hagnýt ráð. Landsbankinn, eins og mörg önnur íslensk fyrirtæki, hefur orðið fyrir því að netsvikarar misnota vörumerki bankans og setja upp síður eða leiki á samfélagsmiðlum til að lokka fólk til að gefa upp kortaupplýsingar eða ginna það til að „fjárfesta“ í rafmyntum eða hlutabréfum. Þeir fjölluðu um hvernig vakta má vörumerkjanotkun á samfélagsmiðlum, hvað þarf til að fjarlægja falsaðar síður og fleira í þeim dúr. Þá ræddu þeir um varnir gegn tölvupóstsvikum og kom m.a. fram að frá áramótum hafa varnarkerfi bankans stöðvað um 24 milljón tölvupósta sem ýmist innihéldu vírusa, ruslpóst eða annað slíkt. Þeir ræddu einnig um tilraunir til að koma fyrir spillihugbúnaði með Log4j og Orion Solarwinds, viðbrögð bankans og lærdóm sem við höfum dregið af þessum málum.
Dóra Gunnarsdóttir, viðskiptastjóri á Fyrirtækjasviði Landsbankans, stýrði fundinum sem var haldinn í salnum Háteig á Grand Hóteli Reykjavík.
Hákon L. Aakerlund og Ægir Þórðarson, sérfræðingar í netöryggismálum.
Um 120 manns sóttu fundinn. Sum komu á fundinn en önnur fylgdust með í streymi.
Október er netöryggismánuðurinn
Við í Landsbankanum tökum netöryggi mjög alvarlega. Tilgangurinn með þessum fræðslufundi var að stuðla að umræðu um netöryggi og miðla þeirri þekkingu sem til er á þessum málum hér í bankanum.
Október er helgaður netöryggismálum. Fyrr í þessum mánuði héldum við fræðslufund í samvinnu við Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB).
Á vef bankans er mikið og aðgengilegt fræðsluefni um netöryggi.