Loks mögulegt að þinglýsa íbúðalánum rafrænt
Landsbankinn býður nú upp á rafrænar þinglýsingar við endurfjármögnun íbúðalána og er bankinn fyrstur til að taka þetta skref. Unnið er að því að hægt verði að þinglýsa rafrænt öllum íbúðalánum bankans.
Þetta þýðir að nú geta viðskiptavinir okkar endurfjármagnað íbúðalánin sín, gengið frá skjölunum og bankinn svo þinglýst rafrænt. Ekki er lengur þörf á að fara til sýslumanns til að þinglýsa. Um er að ræða stórt og viðamikið verkefni sem markvisst hefur verið unnið að frá árinu 2019 í góðu samstarfi við sýslumannsembættin og fleiri.
Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir: „Áhersla okkar á að bjóða samkeppnishæf kjör og framúrskarandi þjónustu hefur leitt til þess að markaðshlutdeild Landsbankans á íbúðalánamarkaði hefur aukist hratt. Starfsfólk bankans um allt land getur sinnt íbúðalánaráðgjöf og afgreiðslu íbúðalána óháð staðsetningu sem hefur haldið biðtíma í lágmarki. Þrátt fyrir stóraukna eftirspurn hefur okkur því tekist að gera ferlið við íbúðalánatöku og endurfjármögnun einfaldara og fljótlegra. Með rafrænum þinglýsingum íbúðalána styttist biðtími enn frekar og sporin sparast. Okkar markmið er að einfalda viðskiptavinum lífið og rafrænar þinglýsingar íbúðalána gera það svo sannarlega.“
Um íbúðalán Landsbankans
Landsbankinn lánar allt að 85% af kaupverði eignar, 70% grunnlán til allt að 40 ára og 15% viðbótarlán til allt að 15 ára. Við endurfjármögnun getur hámarks veðsetning verið 70% af fasteignamati eignar. Vextir geta ýmist verið verðtryggðir eða óverðtryggðir, fastir eða breytilegir. Ef lánshlutfallið er lægra en 60% af fasteignamati íbúðarinnar og þú ert með lán á föstum vöxtum greiðir þú lægri vexti. Föstu vextirnir lækka enn frekar ef lánshlutfallið er lægra en 50% af fasteignamati.