Ellert Arnarson nýr forstöðumaður Fyrirtækjaráðgjafar

Ellert Arnarson hefur verið ráðinn forstöðumaður Fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans og mun hann hefja störf á næstu vikum.
Ellert hefur mikla og víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Á árunum 2013-2019 var hann verkefna- og sjóðstjóri hjá GAMMA Capital Management en þar byggði hann m.a. upp og stýrði teymi á sviði sérhæfðra fjárfestinga sem bar ábyrgð á uppbyggingu nokkurra fyrirtækja og lánasafna. Frá árinu 2019 hefur hann starfað við eignastýringu hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Áður starfaði Ellert m.a. sem sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf fyrir Straum fjárfestingarbanka. Hann hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands frá árinu 2008 og m.a. haft umsjón með námskeiði um skuldabréf fyrir meistaranema í Viðskipta- og hagfræðideild skólans.
Ellert lauk B.Sc. gráðu í stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 2010. Hann lauk M.Sc. gráðu í fjármálahagfræði frá sama skóla árið 2013 og hefur einnig lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
Um Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans
Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans veitir yfirgripsmikla og vandaða ráðgjöf um kaup, sölu og samruna fyrirtækja, sem og um skráningu á verðbréfamarkað og fjárhagslega endurskipulagningu. Meðal verkefna á árinu 2021 var vel heppnað hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hf. og skráning félagsins á Aðallista Kauphallarinnar. Þá var Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans ráðgjafi við framkvæmd nýtingar áskriftarréttinda Icelandair, sá um vel heppnuð skuldabréfaútboð fyrir ýmis félög og hafði umsjón með útgáfu og töku skuldabréfa þeirra til viðskipta í Kauphöll.









