Orkuveita Reykjavíkur fær sjálfbærnimerki Landsbankans
Orkuveita Reykjavíkur hefur fengið sjálfbærnimerki Landsbankans vegna framleiðslu á rafmagni og hita með lágu kolefnisspori. Merkið er veitt þeim fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði um sjálfbærni sem sett eru fram í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans og standast strangar kröfur um umhverfisvæn verkefni.
Bjarni Bjarnason, forstjóri OR:
„Orkuveita Reykjavíkur er stolt af þeirri viðurkenningu sem í þessu felst. Við höfum þegar skuldbundið okkur til að standa undir ströngum kröfum lánveitenda um samfélagsábyrgð. Fyrirtækið var þannig brautryðjandi í útgáfu grænna skuldabréfa hér á landi og stenst kröfur Norræna fjárfestingarbankans um græna fjármögnun. Það er afar ánægjulegt að lánastofnanir séu í vaxandi mæli að horfa til áhrifa peninganna sem þær lána á umhverfi og samfélag. Framtak Landsbankans í þessa veru er lofsvert.“
Árni Þór Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs Landsbankans:
„Það er ánægjulegt að veita Orkuveitu Reykjavíkur sjálfbærnimerki bankans vegna raforku- og hitaframleiðslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Með sjálfbærnimerkinu viljum við styðja viðskiptavini okkar í sjálfbærnivinnu þeirra. Orkuveita Reykjavíkur hefur um langt skeið sýnt eftirtektarvert frumkvæði í sjálfbærnimálum og gert íslenskum almenningi og fyrirtækjum kleift að nýta raforku og hita með mjög lágu kolefnisspori.“
Sjálfbær fjármögnun
Fyrirtæki geta óskað eftir því að fá sjálfbærnimerki Landsbankans ef fyrirtækið, eða verkefnið sem verið er að fjármagna, uppfyllir skilyrði um sjálfbærni sem sett eru fram í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans. Dæmi um sjálfbær verkefni eru til að mynda orkuskipti í samgöngum, endurnýjanleg raforkuframleiðsla, sjálfbærnivottaðar fiskveiðar, vistvænar byggingar og verkefni sem stuðla að félagslegri uppbyggingu.
Á meðfylgjandi mynd að ofan eru Bjarni Bjarnason forstjori Orkuveitu Reykjavíkur, Árni Þór Þorbjörnsson framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs Landsbankans og Aðalheiður Snæbjarnardóttir sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum.