Landsbankinn leiðandi í Evrópu samkvæmt mælingu Sustainalytics
Landsbankinn fær enn betri einkunn en áður í nýju UFS-áhættumati frá Sustainalytics og lækkar úr 17,5 niður í 13,5 stig á skala sem nær upp í 100. Landsbankinn er nú í 2. sæti af 382 bönkum sem fyrirtækið hefur mælt í Evrópu. Sustainalytics telur einkar litla hættu á að Landsbankinn verði fyrir fjárhagslegum áföllum vegna umhverfis- og félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS).
Árið 2019 var Landsbankinn með 17,5 stig en lækkar í 13,5 stig og færist úr 6. sæti af 376 evrópskum bönkum sem Sustainalytics mældi upp í 2. sæti af 382 bönkum.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans: „Það felst mikil viðurkenning í því að Landsbankinn skuli vera í 2. sæti af tæplega 400 evrópskum bönkum í úttekt Sustainalytics. Við leggjum áherslu á góðan og stöðugan rekstur og að bankinn byggi upp viðskiptasambönd til langs tíma. Traust áhættumenning og samfélagsábyrgð skiptir verulegu máli og við finnum að viðskiptavinir treysta í síauknum mæli á að við séum í fararbroddi á þessum sviðum. Við erum mjög stolt af þessari niðurstöðu og ætlum svo sannarlega að halda áfram að vera leiðandi á þessum vettvangi.“
Nánar um áhættumat Sustainalytics
UFS-áhættumat metur áhættu og áhættustýringu fyrirtækis í tengslum við UFS-þætti sem taldir eru mikilvægir fyrir hvert fyrirtæki út frá undirliggjandi atvinnugreinum. Aðferðafræðin metur umfang mikilvægrar UFS-áhættu sem áhættustýring fyrirtækis nær ekki til. Því meiri áhætta sem fellur utan áhættustýringarramma fyrirtækisins, því hærra er áhættumatið.