Hámark á snertilausum greiðslum með greiðslukortum hækkar í 7.500 krónur
Ákveðið hefur verið að hækka hámarksfjárhæð greiðslu með snertilausum VISA-greiðslukortum í 7.500 krónur. Til að breytingin taki gildi þarf að breyta hugbúnaði í posum. Byrjað verður að uppfæra posa í matvöruverslunum og apótekum og er gert ráð fyrir að því ljúki fyrir páska.
Með breytingunum sem nú eru að ganga í gildi hækkar hámarkið á hverri snertilausri greiðslu úr 5.000 krónum í 7.500 krónur. Hámarkið á uppsafnaðar snertilausar greiðslur, þ.e. þar til slá þarf inn PIN, hækkar úr 10.500 krónum í 15.000 krónur.
Engin sérstök fjárhæðarmörk ef þú greiðir með símanum
Til að sporna gegn útbreiðslu Covid-19 hefur landlæknir mælt með notkun snertilausra greiðsluleiða. Við mælum með að viðskiptavinir noti símann sinn til að greiða fyrir vörur og þjónustu enda gilda þá engar fjárhæðartakmarkanir á greiðslum, umfram þær takmarkanir sem eru á kortunum sem greiðslulausnir fyrir síma eru tengdar við.
Breyting á öllum posum getur tekið 2-3 vikur
Ofangreind breyting er gerð í samvinnu við Valitor, Verifone og VISA. Gert er ráð fyrir að lokið verði við að uppfæra posa í matvöruverslunum og apótekum fyrir páska og að lokið verði við að uppfæra posa í öðrum verslunum eftir 2-3 vikur.