Sýning á Kjarvalsmyndum Landsbankans í Austurstræti 11
Opnuð hefur verið sýning á 24 verkum eftir Jóhannes S. Kjarval sem eru í eigu Landsbankans. Sýningin er haldin í útibúi bankans við Austurstræti 11 og er opin á afgreiðslutíma útibúsins.
Eitt af fyrstu verkefnum Kjarvals eftir að hann sneri heim frá Danmörku um 1920 var að mála portrettmyndir af fjórum fyrstu bankastjórum Landsbankans. Í kjölfarið var honum falið að gera veggmyndirnar miklu um útgerðarsögu landsmanna á annarri hæð nýbyggingarinnar sem reis í kjölfar miðbæjarbrunans 1915. Fram á sín síðustu ár átti Kjarval regluleg samskipti við bankann, jafnt viðskiptaleg sem persónuleg, enda bjó hann um tíma í Austurstræti, gegnt bankanum. Með tíð og tíma eignaðist Landsbankinn eitt stærsta einkasafn af verkum Kjarvals sem til er, alls rúmlega sjötíu verk.
Í kjölfar Kjarvalssýningarinnar verður reglulega efnt til sýninga með helstu verkum íslenskra myndlistarmanna sem eru í eigu bankans undir heitinu: Listasafn Landsbankans: Sýningaröð um menningararf.
Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur er sýningarstjóri.