Landsbankinn í 6. sæti af 376 bönkum í Evrópu
Landsbankinn hefur fengið UFS-áhættumat frá Sustainalytics sem snýr að samfélagsábyrgð bankans, nánar tiltekið umhverfis- og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS-þáttum). Landsbankinn fékk mjög góða einkunn og er bankinn í 6. sæti af 376 bönkum í Evrópu sem Sustainlytics hefur mælt. Landsbankinn fékk 17,5 stig af 100 mögulegum sem þýðir að bankinn er talinn vera í lítilli áhættu að verða fyrir fjárhagslegum áhrifum vegna UFS -þátta.
Krafan um úttekt ytri aðila á UFS-þáttum fyrirtækja hefur aukist undanfarin ár og vilja ýmsir fjárfestar að það liggi fyrir óháð mat þriðja aðila á samfélagsábyrgð bankans. UFS-þættir (e. Economic, Social, Governance, ESG) eru viðmið sem snúa m.a að því hvernig fyrirtæki gætir að umhverfislegum áhrifum starfsemi sinnar og hvernig fyrirtæki kemur fram við starfsfólk sitt, birgja, viðskiptavini og samfélagið sem það starfar í.
Sustainalytics er alþjóðlegt mats- og greiningarfyrirtæki sem aðstoðar fjárfesta, útgefendur og fyrirtæki um allan heim við að innleiða aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga og sjálfbærra fjármálagerninga.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans: „Þetta er virkilega góð niðurstaða fyrir Landsbankann. Við höfum lagt mikla vinnu í samfélagsábyrgð á undanförnum árum. Viðskiptavinir okkar eru sífellt meðvitaðri um þau tækifæri sem felast í því að vera leiðandi í samfélagsábyrgð og vilja vinna með banka sem stendur sig vel. Sustainalitics er óháður, leiðandi aðila og með því að fá staðfestingu á góðri stöðu bankans getur Landsbankinn miðlað áreiðanlegum upplýsingum til fjárfesta og einnig fengið betri yfirsýn yfir stöðu bankans í alþjóðlegum samanburði.“
Nánar um áhættumat Sustainalytics
UFS-áhættumat metur áhættu og áhættustýringu fyrirtækis í tengslum við UFS-þætti sem taldir eru mikilvægir fyrir hvert fyrirtæki, út frá undirliggjandi atvinnugreinum. Aðferðafræðin metur umfang mikilvægrar UFS-áhættu sem áhættustýring fyrirtækis nær ekki til. Því meiri áhætta sem fellur utan áhættustýringarramma fyrirtækisins, því hærri er UFS áhættumatið.