Upptökur og glærusýningar frá morgunfundi um hagspá Landsbankans
Upptökur frá morgunfundi sem haldinn var 30. október í tilefni af útgáfu hagspár Landsbankans 2019-2022 eru nú aðgengilegar á Umræðunni. Þar er hagspáin einnig birt í heild og hægt er að hlaða niður glærusýningum frummælenda.
Á fundinum kynnti Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, nýja hagspá deildarinnar og Una Jónsdóttir og Ari Skúlason, hagfræðingar í Hagfræðideildinni, fjölluðu ítarlega um stöðu og horfur á húsnæðismarkaði. Jamie Rush, aðalhagfræðingur Evrópudeildar Bloomberg Economics í London flutti erindi um efnahagsleg áhrif popúlisma og ræddi m.a. um áhrifin af Brexit og tollastríði Bandaríkjanna og Kína. Fundinum lauk á pallborðsumræðu um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi með þátttöku Eggerts Þórs Kristóferssonar, forstjóra Festi, Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Samtaka iðnaðarins, Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar og Lilju B. Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans. Fanney Birna Jónsdóttir, fjölmiðlakona, stýrði umræðunni. Fundarstjóri var Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða Landsbankans.
Í hagspánni er gert ráð fyrir að landsframleiðsla á Íslandi dragist saman á þessu ári og að hagvöxtur verði neikvæður um 0,4%. Horfur eru á hóflegum efnahagsbata á næstu árum og spáir deildin því að hagvöxtur verði jákvæður um 2% árið 2020. Verðbólga verði nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans og vextir lágir.