Breytingar á verðskrá Landsbankans 13. ágúst nk.
Nokkrar breytingar verða gerðar á verðskrá Landsbankans frá og með 13. ágúst nk. Gjald fyrir úttekt með debetkorti í hraðbanka eða banka erlendis lækkar úr 2,0% í 1,0% en lagt verður á 800 kr. lágmarksgjald vegna úttektar. Gjald fyrir greiðslu með debetkorti hjá þjónustu- eða söluaðila erlendis var 1% en verður fellt niður.
Lágmarkslántökugjald vegna bíla- og tækjafjármögnunar mun hækka úr 10.000 kr. í 15.000 kr. Þá verður lagt á 15.000 kr. gjald vegna skjalagerðar til öflunar heimildar til að flytja tímabundið úr landi bíl sem á hvílir bílalán eða var keyptur með bílasamningi.
Álagi vegna innleystra skuldbindinga vegna vanskila við þriðja aðila verður breytt með eftirfarandi hætti:
- Lágmarksgjald vegna stöðumælasektar var 2.800 kr. en mun lækka í 1.500 kr.
- Lágmarksgjald vegna bifreiðagjalda, þungaskatts, tryggingaiðgjalda og vanrækslugjalda er nú 2.800 kr. en verður 3.000 kr.