Landsbankinn hlýtur jafnlaunavottun
Með innleiðingu jafnlaunastaðals hefur Landsbankinn komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.
Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 og fór Landsbankinn í gegnum vinnu við jafnlaunavottunina á árinu 2018. Lokaúttekt bankans fór fram í janúar og framkvæmdi BSI á Íslandi, faggild skoðunarstofa, úttektina. Hefur vottunin nú tekið gildi.
Baldur G. Jónsson, mannauðstjóri:
„Landsbankinn hefur um árabil lagt ríka áherslu á að konur og karlar sem starfa í bankanum hljóti jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf og sömu starfstækifæri. Landsbankinn hefur í tvígang hlotið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC og innleiddi á síðasta ári Jafnréttisvísi Capacents. Það er ánægjulegt að bankinn hafi nú hlotið lögbundna jafnlaunavottun sem er góð viðbót við þá miklu vinnu sem þegar hefur farið fram í bankanum til að tryggja launajafnrétti.“