Ný útgáfa af almennum viðskiptaskilmálum Landsbankans
Landsbankinn hefur gefið út nýja útgáfu af almennum viðskiptaskilmálum. Með útgáfunni eru uppfærð ákvæði um vinnslu persónuupplýsinga, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, netbanka fyrirtækja og greiðslukort. Þá eru skilmálar um kreditkort felldir inn í almennu viðskiptaskilmálana. Nýju skilmálarnir gilda frá og með 15. mars 2019 gagnvart nýjum viðskiptavinum en frá og með 15. maí 2019 gagnvart núverandi viðskiptavinum.
Helstu breytingar á almennum viðskiptaskilmálunum eru eftirfarandi:
A. Vinnsla persónuupplýsinga og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka:
- Umfjöllun um vinnslu persónuupplýsinga er færð undir kafla um almenn ákvæði um viðskiptasambandið.
- Ákvæði um heimildir bankans til vinnslu persónuupplýsinga eru skýrð. M.a. er bætt við ákvæðum um fræðslu að því er varðar:
- Bætt er við ákvæði um ábyrgð og skyldur viðskiptavina móttaki þeir upplýsingar sem varða þá ekki.
- Mælt er fyrir um skyldu raunverulegra eigenda lögaðila til að sanna á sér deili við stofnun viðskipta.
B. Greiðslukort og netbanki fyrirtækja:
- Skilmálar um debet- og kreditkort hafa verið sameinaðir í 5. kafla skilmálanna sem ber heitið „Greiðslukort“. Almenn umfjöllun um greiðslukort (bæði debet- og kreditkort) er að finna í undirköflum 5.1 til 5.4. en sérákvæði um kreditkort er að finna í undirkafla 5.5.
- Með breytingunni falla niður viðskiptaskilmálar fyrir Visa kreditkort og viðskiptaskilmálar MasterCard kreditkorta Landsbankans.
- Ákvæði um netbanka fyrirtækja eru skýrð. Felld eru brott ákvæði um umsóknir um netbanka fyrirtækja, tengilið fyrirtækis, starfsmenn og heimildir þeirra og ýmsar tilkynningaskyldur í tengslum við lokun fyrir aðgang starfsmanns og hámarks millifærsluheimild. Bætt er við umfjöllun um skyldur þess sem fer með ákvörðunarvald fyrir hönd fyrirtækis, skyldu notanda til að kynna sér Almennu viðskiptaskilmálana og að framkvæmdastjóri eða prókúruhafi fyrirtækis hafi ákvörðunarvald aðgangsstjóra nema fyrirtæki tilgreini annan.
Í samræmi við ákvæði laga um greiðsluþjónustu hefur núverandi viðskiptavinur rétt á að tilkynna bankanum um uppsögn rammasamnings um greiðsluþjónustu fyrir 15. maí 2019 ef hann samþykkir ekki breytingarnar. Núverandi viðskiptavinur telst hafa samþykkt breytingarnar tilkynni hann bankanum ekki um annað fyrir 15. maí 2019.
Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans (ný útgáfa)