Tilkynnt um tilraun til símasvika
Landsbankanum hefur í dag borist ábending um tilraun til símasvika en í því tilfelli kynnti viðkomandi sig sem þjónustufulltrúa bankans. Hringt var úr leyninúmeri og tilraun gerð til að véla reikningsnúmer út úr viðmælanda, sem var fljótur að átta sig á að þetta væri svikatilraun.
Ef aðrir hafa fengið svona símtal og gefið upp upplýsingar, bendum við viðkomandi á að hafa þegar samband við lögreglu og bankann. Landsbankinn hefur tilkynnt þetta mál til lögreglu.
Ef Landsbankinn hringir í viðskiptavini biður bankinn ekki um númer á reikningum, enda sjá starfsmenn bankans reikningsnúmerin í kerfum bankans. Ekki er heldur beðið um lykilorð eða annað slíkt fyrir netbankann eða appið. Ef einhver hringir og kynnir sig sem þjónustufulltrúa, án þess að viðskiptavinur hafi áður verið í samskiptum við bankann út af viðkomandi máli, er rétt að fara að öllu með gát.
Þá er ástæða til að hvetja fólk til að gæta vel að lykilorðum sínum þannig að aðrir komist ekki yfir þau.
Landsbankinn hefur áður varað við að ýmsum tegundum netsvika hefur fjölgað undanfarið, sbr. umfjöllun á Umræðunni, efnis- og fréttaveitu Landsbankans.