Fréttir

Lands­bank­inn veit­ir 15 millj­ón­ir króna í sam­fé­lags­styrki - 2018

Samfélagsstyrkjum að upphæð 15 milljónum króna var úthlutað úr Samfélagssjóði Landsbankans þriðjudaginn 18. desember sl. Alls hlutu 37 verkefni styrki að þessu sinni en verkefnin sem hlutu styrki eru afar fjölbreytt og gagnast fólki á öllum aldri og víða um land.
19. desember 2018

Samfélagsstyrkjum að upphæð 15 milljónum króna var úthlutað úr Samfélagssjóði Landsbankans þriðjudaginn 18. desember sl. Alls hlutu 37 verkefni styrki að þessu sinni en verkefnin sem hlutu styrki eru afar fjölbreytt og gagnast fólki á öllum aldri og víða um land.

Styrkþegar ásamt Lilju B. Einarsdóttur bankastjóra Landsbankans og Guðrúnu Agnarsdóttur formanni dómnefndar.

Þrjú verkefni hlutu styrk að fjárhæð 1 milljón króna, 14 verkefni hlutu 500.000 króna styrk og 20 verkefni fengu 250.000 króna styrk.

Rúmlega 300 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni. Samfélagsstyrkjum Landsbankans er ætlað að styðja mannúðar- og líknarmál, menntamál, rannsóknir og vísindi, forvarnar- og æskulýðsstarf, sértæka útgáfustarfsemi og verkefni á sviðum menningar og lista.

Dómnefnd samfélagsstyrkja var að þessu sinni skipuð þeim Ármanni Jakobssyni, prófessor við Háskóla Íslands, Felix Bergssyni, leikara og Guðrúnu Agnarsdóttur, lækni, en hún var jafnframt formaður dómnefndar.

Samfélagsstyrkir Landsbankans 2018

1.000.000 kr.

  • SAFT og Heimili og skóli - Fær styrk fyrir verkefnið Sjálfsmynd, birtingamynd kynjanna, sexting, klám, kynlíf og netið. Tilgangur verkefnisins er að útbúa námsefni fyrir öll þrjú námsstig grunnskóla, þar sem á ábyrgan hátt er fjallað um sjálfsmynd, birtingamynd kynjanna, sexting, klám, kynlíf og netið. Ásamt því að útbúa handbók fyrir foreldra og kennsluleiðbeiningar fyrir kennara.
  • Páll Stefánsson - Styrkurinn er veittur til útgáfu bókarinnar 53 milljónir. Viðfangsefni bókarinnar er flóttafólk. Páll hefur ferðast um heiminn og tekið myndir og safnað sögum af fólki sem hefur þurft að flýja heimkynni sín. Allur ágóði bókarinnar mun renna til flóttamanna í gegnum Rauða krossinn og Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna sem vinna hörðum höndum við að hjálpa þeim 53 milljónum sem nú eru á flótta.
  • Píeta Ísland, félagasamtök - Styrkinn fá Píeta samtökin sem bjóða upp á tvenns konar stuðninghópa fyrir fólk sem misst hefur ástvin fyrir eigin hendi; almennan stuðningshóp og stuðningshóp fyrir karlmenn. Stuðningur er nauðsynlegur til að jafnvægi náist eftir sjálfsvíg ástvina og hópar eru áhrifamikil tæki í slíkri liðveislu.

500.000 kr.

  • Ratatam - Suss! er forvarnarverkefni gegn ofbeldi sem byggist á samnefndri leiksýningu. Ætlunin er að bjóða ungu fólki að sjá sýninguna. Markmiðið er að fræða ungt fólk betur um ofbeldi, þróun þess og afleiðingar. Eftir hverja sýningu eru sérstakar umræður með kennurum og fagaðilum.
  • Dropinn styrktarfélag barna með sykursýki - Styrkurinn er veittur til að styðja við stærsta verkefni Dropans sem er að bjóða upp á árlegar sumarbúðir fyrir börn og unglinga með sykursýki.
  • Alþjóðlega tónlistarakademían í Hörpu - Alþjóðlega tónlistarakademían í Hörpu fær styrk til að halda námskeiðið Harpa International Music Academy 2019. Á námskeiðinu kenna fremstu hljóðfæraleikarar landsins, auk erlendra kennara, og er þetta frábær vettvangur fyrir íslenska hljóðfæranemendur að kynnast jafnöldrum frá ólíkum skólum og löndum, læra hjá nýjum kennurum og spila á tónleikum í Hörpu.
  • Elín Agla Briem - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Sveitaskólinn í Trékyllisvík sem stendur fyrir stuttum námskeiðum í gamla skólahúsinu í Finnbogastaðaskóla. Gestanemendum er boðið að koma þangað í 3 -7 daga og kynnast sveitalífinu í þessari afskekktustu sveit landsins.
  • Skjaldborg - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Skjaldborg - hátíð íslenskra kvikmynda. Skjaldborg er kvikmyndahátíð sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimilamyndir. Verður hátíðin haldin í 13. sinn á Patreksfirði í júní á næsta ári.
  • Guðlaug Mía Eyþórsdóttir - Guðlaug Mía Eyþórsdóttir fær styrk til að endurbæta vefgagnagrunninn Blái vasinn. Blái vasinn er gagnagrunnur og vefsíða þar sem safnað er saman heimildum um íslenska myndlistarmenn fyrr og síðar en markmið Bláa vasans er að gera þekkingarleit um íslenska myndlist auðvelda og skilvirka.
  • Act Alone - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Act Alone 2019. Act Alone er einstök leiklistar- og listarhátíð sem er helguð eins manns listinni. Verður hátíðin haldin á Suðureyri í 16. skipti í ágúst 2019.
  • Hraðar hendur - Styrkurinn er veitturinn til verkefnisins Táknmálstúlkun í leikhúsi. Þau sem að því verkefni koma stefna á að táknmálstúlka tvær leiksýningar í atvinnuleikhúsi leikárið 2019-2020.
  • Landsamtök íslenskra stúdenta - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Student Refugee Ísland. Verkefnið felur í sér að útbúa leiðarvísi, handbók og vefsíðu með öllum þeim upplýsingum sem flóttafólk þarf á að halda til þess að eiga kost á að sækja um háskólanám á Íslandi.
  • Bataskóli Íslands - Fær styrk til að þróa námsleið fyrir jafningjafræðara og sjálfboðaliða. Bataskólinn er fyrir þá sem hafa glímt, eða glíma við geðrænar áskoranir, aðstandendur þeirra og starfsfólk á velferðar- og heilbrigðissvið.
  • Margrét Guðnadóttir - Hlýtur styrk fyrir verkefnið Bætt umönnun fólks með heilabilun í heimahúsi og stuðningur við aðstandendur. Margrét vinnur að vettvangsrannsókn þar sem fylgt er eftir einstaklingum greindum með heilabilun sem búa í heimahúsi og aðstandendum þeirra. Skoðaðar eru þær aðferðir sem fjölskyldur koma sér upp til að takast á við daglegt líf og þær áskoranir sem felast í að lifa með heilabilun.
  • Rauði krossinn á Íslandi - Styrkinn fær Ungfrú Ragnheiður og verkefni Eyjafjarðardeildar Rauða krossins á Akureyri þar sem einstaklingum með erfiðan vímuefnavanda er veitt heilbrigðisaðstoð og nálaskiptaþjónusta eftir hugmyndarfræði skaðaminnkunar.
  • Bjarkarhlíð - Styrkinn fær Bjarkarhlíð sem er þjónustumiðstöð fyrir fullorðna þolendur ofbeldis. Þar gefst einstaklingum kostur á viðtölum og ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum, lögreglu og lögfræðingum, þeim að kostnaðarlausu. Þolendur ofbeldis fá aðstoð að komast úr ofbeldisaðstæðum og vinna úr áföllum.
  • Hjálparstarf kirkjunnar - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Töskur með tilgang sem er verkefni í þágu kvenna af erlendum uppruna. Konurnar hittast einu sinni í viku og sauma saman fjölnota innkaupapoka og grænmetispoka úr efni sem hefur fengist gefins. Verkefninu er í senn ætlað að koma í veg fyrir félagslega einangrun kvennanna og efla þær, sporna við plastpokanotkun og endurnýta efni sem annars yrði fargað.

250.000 kr.

  • Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutingamanna - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Eldvarnarátak 2018. Markmið verkefnisins er að hvetja almenning til varkárni í umgengni við eld og huga að eldvörnum á heimilum.
  • Knattspyrnuvinafélag Litla Hrauns - Styrkurinn er veitur til verkefnisins Knattspyrnuforvörn án fordóma og á að nýtast til að bæta þjálfun og auka fræðslu fyrir fanga á Litla Hrauni.
  • Skógarmenn KFUM – Fá styrk fyrir verkefnið Gauraflokkur í Vatnaskógi. Gauraflokkur er sumardvöl í Vatnaskógi fyrir drengi sem greinst hafa með ofvirkni, athyglisbrest og aðrar skyldar raskanir.
  • 101derland – Styrkurinn er veittur til verkefnisins Snælda. Snælda er námskeið ætlað ungum og efnilegum tónlistarkonum. Námsefnið er víðfeðmt og verður meðal annars farið yfir hvernig best er að haga lagasmíðum, ýmis atriði varðandi hljóðupptöku verða kynnt og farið verður yfir fagleg atriði tónlistariðnaðarins sem gott er að kunna skil á.
  • Dómkórinn í Reykjavík - Styrkinn fær Dómkórinn í Reykjavík, ásamt einsöngvurum og kammersveit, til að flytja Jólaóratoríu Bachs í Hallgrímskirkju. Jólaóratorían hefur glatt hjörtu tónlistarunnenda um langan aldur, enda eitt höfuðverka síðbarokksins. Verkið inniheldur sex kantötur sem Bach samdi undir árslok 1734.
  • Byggðasafnið í Görðum, Akranesi – Styrkurinn er veittur til verkefnisins Ný grunnsýning Byggðasafnsins í Görðum. Safnið hefur sérstöðu í íslenskri safnaflóru og býr yfir fjölbreyttum safnkosti, bæði munum og ýmsum húsakosti sem gefur fjölmörg tækifæri í sögumiðlun. Ljóst er að löngu er orðið tímabært að uppfæra fastasýningu safnsins en núverandi grunnsýning hefur staðið í um fjörtíu ár. Fyrirhugað er að opna nýja grunnsýningu safnsins á næsta ári, á 60 ára afmælisári safnsins.
  • Tónskáldafélag Íslands – Styrkurinn er veittur til verkefnisins Myrkrabörn. Myrkrabörn er ný tónlistarhátíð fyrir börn og fjölskyldur þeirra sem mun fara fram í Kaldalóni í Hörpu í janúar og febrúar, samhliða Myrkum músíkdögum. Á dagskrá verða tónleikar sem kynna mismunandi form samtímatónlistar auk þess sem haldnar verða opnar vinnustofur þar sem börn fá tækifæri til þess að kynnast nýstárlegum og spennandi aðferðum í sköpun samtímatónlistar.
  • Hlutmengi ehf. – Styrkurinn er veittur til verkefnisins Píanó í Mengi. Mengi er menningarmiðstöð í hjarta Reykjavíkur sem er ekki rekin í hagnaðarskyni. Til stendur að kaupa píanó svo að hægt verði að standa fyrir fleiri tónleikum þar sem píanó kemur við sögu.
  • Félagið Íslensk Grafík – Styrkurinn er veittur til verkefnisins Íslensk Grafík 50 ára - samvinna og miðlun til framtíðar. Félagið Íslensk Grafík verður 50 ára á næsta ári og í tilefni stórafmælisins mun félagið vera með sýningar, námskeið og fleiri spennandi viðburði allt afmælisárið.
  • Pangea stærðfræðikeppni – Styrkurinn er veittur til að halda stærðfræðikeppnina Pangea árið 2019 þar sem allir nemendur áttundu og níundu bekkja á Íslandi geta tekið þátt. Tilgangur keppninnar er að auka áhuga á stærðfræði og efla sjálfsmynd barna með því að gera þeim kleift að ná árangri við úrlausn verkefna. Keppnin er haldin í 18 löndum í Evrópu.
  • Núvitundarsetrið ehf. – Styrkurinn er veittur til verkefnisins Innleiðing núvitundar í skólastarfi. Fagaðilar á vegum Núvitundarsetursins hafa þróað heildræna nálgun í að innleiða núvitund í skólastarfi. Markmið þessarar heildrænu nálgunar er að innleiðingarferli loknu verði mannauður skólans sjálfbær til að viðhalda og þjálfa núvitund fyrir starfsfólk og nemendur.
  • Vaka Rögnvalsdóttir – Vaka Rögnvaldsdóttir hlýtur styrk fyrir langatímarannsókn sína: Svefn, hreyfing og holdafar íslenskra ungmenna. Niðurstöður rannsóknarinnar munu veita innsýn í breytingar á heilsu og lifnaðarháttum barna, ungling og ungmenna og hjálpa til við að móta og styrkja forvarnir og eflingu lýðheilsu til framtíðar.
  • Þóra Sigfríður Einarsdóttir - Þóra Sigfríður Einarsdóttir hlýtur styrk fyrir rannsókn sína: Áföll og áfallastreita hjá íslensku þjóðinni. Þóra er doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík og vinnur að rannsókn sem felst í því að afla faraldsfræðilegra upplýsinga um tíðni áfalla hjá íslensku þjóðinni.
  • Guðrún Tryggvadóttir - Styrkurinn er veittur til útgáfu bókar um rannsókn á lífsverki Ámunda Jónssonar smiðs og listamanns á Suðurlandi sem meðal annars smíðaði kirkjur og önnur mannvirki á 18. öld. Rannsókn á lífsverki Ámunda hefur ekki verið unnin heildstætt áður.
  • Elín Sigríður Arnórsdóttir - Elín hlýtur styrk til þess að gefa út Jökuldælu á rafrænu formi. Efnið er í nokkrum hlutum og er varveitt á Héraðsskjálasafninu á Egilsstöðum og má segja að sé einskonar byggðarsaga sveitarinnar í Jökuldal.
  • Kvenfélag Grímsneshrepps - Styrkurinn er veittur til að rita 100 ára menningarsögu Kvenfélags Grímsneshrepps sem hefur haldið uppi öflugu starfi í heila öld. Markmið með ritinu er að segja sögu þeirra kjarnakvenna sem veturinn 1918-1919 stofnuðu félagið, þar sem bæði eldgos og sjúkdómar settu svip á tíðarfarið ein einnig þeirra kvenna sem á eftir þeim komu og hafa haldið starfi félagsins öflugu og sterku öll þessi ár.
  • Félag nýrnasjúkra - Félag nýrnasjúkra fær styrk til að kaupa spjaldtölvur fyrir Blóðskilunardeild Landspítalans. Spjaldtölvurnar nýtast bæði fyrir sjúklinga á meðan þeir eru í blóðskilun en einnig fyrir hjúkrunarfræðinga til að auðvelda upplýsingagjöf til sjúklinga áður en meðferð hefst.
  • Heiðrún Janusardóttir - Alzheimersamtökin á Akranesi hljóta styrk til að geta boðið upp á stuðning fyrir fólk með heilabilunarsjúkóma og aðstandendur þeirra í heimabyggð.
  • Blóðgjafafélag Íslands - Styrkurinn er veittur til Blóðgjafafélags Íslands með það að markmiði að fjölga blóðgjöfum. Hlutverk félagsins er m.a. að fræða blóðgjafa, almenning og aðra um mikilvægi blóðs til lækninga, afla og veita fræðslu um blóðsöfnun og blóðbankastarfsemi.
  • Vinaskákfélagið - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Vinaskák í VIN sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir. Tilgangur Vinaskákfélagsins er að efla skáklíf meðal fólks með geðraskanir. Vinaskákfélagið hlúir að skáklífinu í VIN, jafnframt því að efna til viðburða í þágu fólks með geðraskanir, í samvinnu við athvörf, búsetukjarna, geðdeildir, félagasamtök og einstaklinga.

Nánari upplýsingar um stuðning Landsbankans við samfélagið

Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
12. apríl 2024
Yfirlýsing frá bankaráði Landsbankans
Líkt og fram kemur í greinargerð bankaráðs Landsbankans til Bankasýslu ríkisins frá 22. mars sl. þá átti bankaráð, frá miðju ári 2023, frumkvæði að því að upplýsa Bankasýsluna um áhuga bankans á að kaupa TM. Þann 20. desember 2023, sama dag og bankinn gerði óskuldbindandi tilboð í félagið, var Bankasýslan upplýst í símtali um að bankinn væri þátttakandi í söluferli TM. Bankasýslan setti aldrei fram athugasemdir eða óskaði eftir frekari upplýsingum eða gögnum fyrr en eftir að tilboð bankans hafði verið samþykkt.
Peningaseðlar
4. apríl 2024
Vegna norskra, sænskra og danskra seðla
Notkun reiðufjár fer minnkandi í Evrópu og sérstaklega á Norðurlöndunum. Aukin notkun á stafrænni tækni í verslun og viðskiptum og heimsfaraldur hafa flýtt þeirri þróun. Varnir gegn peningaþvætti hafa einnig sett gjaldeyrisviðskiptum með reiðufé verulegar skorður og hafa lög og reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti verið hertar, sérstaklega á Norðurlöndunum.
Stúlka með síma
27. mars 2024
Þjónusta um páskana – appið getur komið sér vel!
Útibú og þjónustuver Landsbankans verða að venju lokuð um páskana og opna næst þriðjudaginn 2. apríl nk.
Eystra horn
25. mars 2024
Hagnaður Landsbréfa 1.035 milljónir á árinu 2023
Landsbréf hf., dótturfélag Landsbankans, hafa birt ársreikning vegna reksturs ársins 2023. 
15. mars 2024
Landsbankinn lækkar vexti
Landsbankinn lækkar vexti á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum með fasta vexti.
Netbanki
15. mars 2024
Skert þjónusta vegna viðhalds aðfaranótt sunnudags
Vegna kerfisuppfærslu verður tiltekin þjónusta bankans ekki aðgengileg aðfaranótt sunnudagsins 17. mars. Gert er ráð fyrir að þjónustan verði skert frá miðnætti laugardagskvöldið 16. mars til kl. 7.00 á sunnudagsmorgun.
Stúlkur með síma
11. mars 2024
Landsbankaappið tilnefnt sem app ársins
Landsbankaappið hefur verið tilnefnt sem app ársins 2023 á Íslensku vefverðlaununum sem verða afhent 15. mars næstkomandi.
Fjölskylda
7. mars 2024
Endurfjármögnun aldrei verið þægilegri
Núna getur þú endurfjármagnað íbúðalánið þitt með enn einfaldari hætti á vefnum eða í Landsbankaappinu. Endurfjármögnun íbúðalána hefur aldrei verið þægilegri eða fljótlegri.
Fjármálamót á pólsku
4. mars 2024
Takk fyrir komuna í Reykjanesbæ!
Frábær mæting var á annað Fjármálamót Landsbankans á pólsku í síðustu viku. Fjármálamót er heitið á fræðslufundaröð Landsbankans og var fundurinn haldinn í Reykjanesbæ að þessu sinni, í samstarfi við Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis.
Peningaseðlar
1. mars 2024
Útleiðum danska, norska og sænska seðla
Landsbankinn mun hætta kaupum og sölu á reiðufé í þremur Norðurlandagjaldmiðlum á næstunni. Um er að ræða norskar, sænskar og danskar krónur. 
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur