Fræðslustarf Landsbankans hlýtur EQM-gæðavottun
Með vottuninni er verið að mæta þörfum um aukið gagnsæi og gæðavottun í símenntun og fræðslu. Hún gagnast öllum þeim sem skipuleggja, bjóða upp á, meta eða nota símenntun og fullorðinsfræðslu. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins er vottunaraðili EQM-gæðavottunar hér á landi og sá fyrirtækið Vaxandi – ráðgjöf um úttektina.
Gæðastimpill á fræðslustarf
Auður Hrefna Guðmundsdóttir, sérfræðingur í fræðsludeild Landsbankans, segir: „Vottunin er ákveðinn gæðastimpill á það fræðslustarf sem hefur farið fram hér í bankanum síðustu ár. Við erum stöðugt að vinna að umbótum í fræðslustarfi bankans. Með gæðavottuninni erum við að festa enn betur í sessi ákveðið verklag við undirbúning og framkvæmd fræðslu sem er í boði fyrir starfsfólk. Vottunin gerir m.a. þær kröfur að við þurfum að skilgreina vel námsmarkmið og leggja fyrir námsmat þegar við á. Með þessu verður kennsla markvissari og leiðbeinendur fá betri stuðning í sínu hlutverki. Markmiðið er að fræðsla sem er í boði fyrir starfsfólk bankans skili sem bestum árangri.“
Starfsfólk hvatt til að sækja sér þekkingu
Tækni, regluverk og væntingar viðskiptavina þróast hratt og verkefni Landsbankans eru stöðugt að breytast. Landsbankinn leggur mikla áherslu á að skapa hvetjandi lærdómsumhverfi fyrir starfsfólk. Starfsfólk bankans er mjög meðvitað um þetta og er duglegt að sækja sér nauðsynlega þekkingu til að tryggja gæði í þjónustu.