Hægt að sjá hvort tölvan hafi sýkst vegna svikapósts
Fyrir stuttu var sendur út svikapóstur í nafni lögreglunnar. Tilgangurinn var að fá fólk til að hlaða niður mjög varasömum tölvuvírus. Landsbankinn hefur látið útbúa lítið forrit sem nemur hvort tölvur hafi verið sýktar af þessum vírus og er hægt að hlaða því niður af vef bankans.
Tölvupósturinn sem var sendur út í nafni lögreglunnar dagana 5.-7. október sl. var dreifileið fyrir vírusinn Remcos-Shadesoul. Vírusinn getur sýkt tölvur sem keyra á Windows-stýrikerfinu og opnar m.a. leið fyrir tölvuþrjóta til að ná stjórn á tölvum og nálgast upplýsingar úr þeim.
Landsbankinn hefur, í samvinnu við erlendan samstarfsaðila bankans, smíðað forrit sem nemur hvort tölvur hafi verið sýktar af umræddum vírusi. Forritið nefnist RemcosDetector.exe.
Alla jafna mælum við ekki með að viðskiptavinir okkar keyri .exe-skrár beint af netinu. Í ljósi þess hversu varasamur þessi tölvuvírus þótti hins vegar rétt að gefa forritið út til almennings. Ef þú fékkst umræddan svikapóst, smelltir á hlekkinn í tölvupóstinum og hlóðst niður viðhengi sem var á vefsíðu sem svikapósturinn vísað á, getur þú hlaðið þessu forriti niður og kannað hvort tölvan þín sé sýkt.
Finni forritið, RemcosDetector.exe, þessar skrár á vélinni þinni bendum við þér á að slökkva á tölvunni og hafa strax samband við viðurkenndan þjónustuaðila áður en þú kveikir á henni aftur.