Landsbankinn fjármagnar framkvæmdir við nýja stúdentagarða Háskólans í Reykjavík
Samningarnir voru undirritaðir í gær, 19. september, stuttu eftir að fyrsta skóflustungan var tekin að byggingunni. Um er að ræða fyrsta áfanga Háskólagarða HR og verður byggingin tæplega 5.900 fermetrar á 4-5 hæðum. Baðherbergi og eldunaraðstaða verður í öllum íbúðum en þvottarými og önnur slík aðstaða verður sameiginleg. Áætlað er íbúðirnar verði teknar í notkun haustið 2020 og að heildarkostnaður verði um 2,6 milljarðar króna.
Gert ráð fyrir 390 íbúðum
Í deiliskipulagi fyrir lóð HR við Öskjuhlíð er gert ráð fyrir byggingu samtals 390 íbúða. Þetta eru allt frá litlum einstaklingsíbúðum, um 25 m2 að stærð, upp í um 80 m2 þriggja herbergja íbúðir. Nokkrar íbúðanna munu einnig nýtast til leigu og tímabundinnar búsetu fyrir starfsfólk HR og starfsfólk fyrirtækja sem starfa innan HR og annarra þekkingarfyrirtækja sem tengjast háskólanum. Auk íbúða verður þjónustukjarni með fjölbreyttri þjónustu syðst á svæðinu, næst HR. Uppbyggingin mun fara fram í fjórum áföngum. Kanon arkitektar hanna byggingarnar og Jáverk mun reisa þær.