Landsbankinn í samstarf við LGT Capital Partners
LGT Capital Partners er leiðandi, sérhæft fjárfestingafyrirtæki með yfir 60 milljarða Bandaríkjadali í stýringu. Á meðal viðskiptavina eru yfir 500 fagfjárfestar frá 37 löndum. Alþjóðlegt teymi yfir 450 sérfræðinga hefur umsjón með fjölbreyttum fjárfestingaleiðum þar sem m.a. er lögð áhersla á sérhæfðar fjárfestingar, eignadreifingu og ávöxtun lausafjár. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Pfaeffikon í Sviss. Fyrirtækið rekur einnig útibú í New York, Dublin, London, París, Vaduz, Dúbaí, Peking, Hong Kong, Tókýó og Sydney.
Fjölbreytt úrval erlendra sjóða
Landsbankinn býður nú þegar upp á miðlun á erlendum hlutabréfum og skuldabréfum á öllum helstu mörkuðum. Einnig býður bankinn upp á milligöngu um kaup í erlendum verðbréfasjóðum hjá þekktum sjóðastýringarfyrirtækjum eins og AllianceBernstein, BlackRock, T. Rowe Price, UBS, Carnegie Funds og í erlendum verðbréfasjóðum sem eru í rekstri hjá Landsbréfum, dótturfélagi Landsbankans.
Tom Haas Carstensen, framkvæmdastjóri Norðurlandastarfs hjá LGT Capital Partners: „Það gleður okkur að hefja samstarf við Landsbankann. Þekking bankans á íslensku atvinnulífi gerir okkur kleift að ná til fleiri fjárfesta. Það er trú okkar að reynsla LGT Capital Partners af sérhæfðum fjárfestingum og því að taka góða stjórnarhætti, umhverfislega og félagslega þætti inn í fjárfestingarákvarðanir, henti mörgum íslenskum fjárfestum.“
Kristín Erla Jóhannsdóttir, forstöðumaður Eignastýringarþjónustu hjá Landsbankanum: „Það er afar ánægjulegt að geta bætt sjóðum LGT Capital Partners við fjölbreytt vöruúrval Landsbankans á erlendum mörkuðum og þannig fjölgað fjárfestingarkostum á alþjóðlegum vettvangi. Við erum ekki síst ánægð með samstarfið þar sem LGT býr yfir mikill þekkingu og reynslu við mat á fjárfestingakostum með sjálfbærni að leiðarljósi. Það samræmist vel stefnu Landsbankans í samfélagsábyrgð en undanfarin ár hefur bankinn verið í fararbroddi við innleiðingu ábyrgra fjárfestinga.“
Kristín Erla Jóhannsdóttir, forstöðumaður Eignastýringarþjónustu Landsbankans