Opið fyrir umsóknir um styrki úr Gleðigöngupotti
Drag-Súgur var meðal þeirra sem hlaut styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans í fyrra.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans. Gleðigöngupottinum er ætlað að styðja einstaklinga og hópa til þátttöku í Gleðigöngu Hinsegin daga sem fer fram 11. ágúst nk.
Landsbankinn hefur verið stoltur styrktaraðili Hinsegin daga um árabil og þegar samstarfssamningur bankans og Hinsegin daga var endurnýjaður í fyrra var ákveðið að stofna um leið Gleðigöngupott. Landsbankinn leggur árlega til 1,5 milljónir króna í pottinn auk annars stuðnings við hátíðina. Stjórn Hinsegin daga annast umsóknarferlið og skipar dómnefnd sem fer yfir umsóknir og úthlutar styrkjunum.
Tekið verður við umsóknum til og með 3. júní og niðurstaðan verður tilkynnt 20. júní. Miðað er við að styrkfjárhæðir séu á bilinu 100.000-500.000 krónur. Við hvetjum sem flesta hugmyndaríka einstaklinga og hópa til að sækja um styrk til að standa að litlum sem stórum atriðum í göngunni.
Sækja um styrk úr Gleðigöngupottinum
Nánari upplýsingar um Gleðigöngupottinn
Dómnefnd Gleðigöngupottsins 2018 skipa:
- Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga
- Karen Ósk Magnúsdóttir, gjaldkeri Hinsegin daga
- Eva Jóhannsdóttir, f.h. göngustjórnar Gleðigöngu Hinsegin daga
- Bjartmar Þórðarson, leikari, söngvari og altmuligmaður
- Ingileif Friðriksdóttir, fjölmiðla- og athafnakona
Ævintýri Drag-Súgs í Gleðigöngunni 2017
Drag-Súgur var einn af sjö hópum sem hlutu styrk úr Gleðigöngupottinum í fyrra og á Umræðunni var fylgst með undirbúningi og þátttöku hópsins í göngunni frá upphafi til enda. Auk þessara sjö hópa hlaut félagið Ace hvatningarverðlaun að göngunni lokinni. Hvatningarverðlaunin eru veitt þeim einstaklingi eða hópi sem með eftirtektarverðum hætti vekur athygli á boðskap síns atriðis í Gleðigöngu Hinsegin daga.
„Þetta er búið að vera algjört ævintýri“ – Drag-Súgur í Gleðigöngunni 2017