Fjallað um framtíð höfuðborgarsvæðisins í tengslum við Verk og vit
Stórsýningin Verk og vit verður haldin í fjórða skipti dagana 8.–11. mars næstkomandi í Laugardalshöll. Í tengslum við sýninguna er haldin ráðstefna um framtíð höfuðborgarsvæðisins í samstarfi við Landsbankann og Samtök iðnaðarins.
Verk og vit er ætluð þeim sem koma að byggingaiðnaði, skipulagsmálum og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, menntastofnunum, hönnuðum og ráðgjöfum. Dagana 8. og 9. mars er sýningin opin fyrir fagaðila, en seinni tvo dagana, laugardag og sunnudag, er almenningur einnig boðinn velkominn. Landsbankinn hefur verið bakhjarl ráðstefnunnar frá upphafi.
Nánari upplýsingar um Verk og vit
Ráðstefna um framtíð höfuðborgarsvæðisins 9. mars
Ráðstefnan Framtíð höfuðborgarsvæðisins – Skipulag innviðir og fjármögnun er haldin í Laugardalshöll föstudaginn 9. mars frá kl. 13.00-16.00. Markmið ráðstefnunnar er að varpa ljósi á framtíð höfuðborgarsvæðisins þegar horft er til skipulags, innviða og fjármögnunar. Farið verður yfir helstu tækifæri og áskoranir sem höfuðborgarsvæðið stendur frammi fyrir á næstu árum. Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, mun setja ráðstefnuna. Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni er Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum og nefnist erindi hans Róast markaðurinn án brotlendingar?