Auglýst eftir samstarfsaðilum til að sjá um verkfræðihönnun
Landsbankinn auglýsir eftir samstarfsaðilum til að sjá um verkfræðihönnun nýbyggingar bankans við Austurbakka 2 í Reykjavík. Frumtillaga liggur fyrir og eru Arkþing ehf. og C.F. Møller höfundar tillögunnar.
Að flatarmáli verður byggingin 14.500 m² ofanjarðar og um 2.000 m² í kjallara, auk bílakjallara sem mun nýtast öllu svæðinu við Austurhöfn. Landsbankinn hyggst nýta um 10.000 m² af húsinu undir eigin starfsemi. Á jarðhæð er gert ráð fyrir verslun og þjónustu, auk móttöku og afgreiðslu fyrir bankann, og á efri hæðum er gert ráð fyrir skrifstofurýmum.
Óskað er eftir að þeir aðilar sem áhuga hafa á að sjá um verkfræðihönnun sendi bankanum tölvupóst með upplýsingum um fyrri verk, reynslu, tæknibúnað og starfsmannafjölda, auk annarra viðeigandi upplýsinga. Ekki er gerð krafa um að sama teymið geti tekið að sér heildarhönnun á öllum verkfræðiþáttum verksins. Landsbankinn mun einnig semja við ráðgjafa til að sinna eftirliti með verklegum framkvæmdum og sjá um kostnaðargát verksins.
Tölvupóstur með umbeðnum upplýsingum skal hafa borist Landsbankanum á netfangið austurbakki@landsbankinn.is eigi síðar en mánudaginn 19. mars nk.
Tengt efni
23.02.2018 - Arkþing og C.F. Møller valin til að hanna nýbyggingu Landsbankans