Fjölgun eldra fólks mun hafa mikil áhrif á samfélagið
Fjölgun eldra fólks er ein stærsta samfélagsbreyting sem Íslendingar, eins og flestar aðrar þjóðir, munu standa frammi fyrir á næstu árum og áratugum. Í nýjum greinaflokki á Umræðunni, efnis- og fréttaveitu Landsbankans, fjallar Ari Skúlason um áhrifin sem þetta mun hafa á samfélagið og á einstaklinga og um möguleg viðbrögð við þessum miklu breytingum.
Lengra líf og samfélagið - lesa greinarnar
Sagan sýnir að þegar ný æviskeið komast í fókus sem samfélagsleg- og menningarleg fyrirbæri fylgja oft miklar breytingar í kjölfarið. Ný sýn á æskuna á 19. öld ruddi brautina fyrir barnaverndarlög og skólaskyldu og skapaði ýmis konar viðskiptatækifæri og iðnað á borð við leikfangaframleiðslu og útgáfu barnabóka. Þegar táningar urðu til sem hópur á miðri síðustu öld átti sá hópur eftir að skapa gífurlegar tekjur fyrir ýmsa framleiðendur.
Nú valda unglingarnir ekki umrótinu
Nú eru að verða álíka umfangsmiklar breytingar og unglingamenningin leiddi af sér, nema hvað nú eru það ekki unglingarnir sem valda umrótinu heldur eldra fólk. Fólki sem komið er á efri ár fjölgar mikið, það er við mun betri heilsu en áður og mun lifa lengur en áður. Þessi þróun mun hafa mikil áhrif á samfélagið og skapar bæði mikil tækifæri og áskoranir.