Fréttir

Lands­bank­inn veit­ir 15 millj­ón­ir króna í sam­fé­lags­styrki - 2017

Samfélagsstyrkjum að upphæð 15 milljónum króna var úthlutað úr Samfélagssjóði Landsbankans fimmtudaginn 14. desember sl. Að þessu sinni voru styrkþegar alls 38 en verkefnin eru afar fjölbreytt og gagnast fólki á öllum aldri og víða um land.
18. desember 2017

Samfélagsstyrkjum að upphæð 15 milljónum króna var úthlutað úr Samfélagssjóði Landsbankans fimmtudaginn 14. desember sl. Að þessu sinni voru styrkþegar alls 38 en verkefnin eru afar fjölbreytt og gagnast fólki á öllum aldri og víða um land.

Styrkþegar ásamt dómnefnd og Helga Teit Helgasyni, framkvæmdastjóra Einstaklingssviðs Landsbankans.

Þrjú verkefni hlutu styrk að fjárhæð 1 milljón króna, eitt hlaut 750.000 króna styrk, 11 verkefni hlutu 500.000 króna styrk og 23 verkefni fengu 250.000 króna styrk.

Rúmlega 300 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni. Samfélagsstyrkjum Landsbankans er ætlað að styðja mannúðar- og líknarmál, menntamál, rannsóknir og vísindi, forvarnar- og æskulýðsstarf, sértæka útgáfustarfsemi og verkefni á sviðum menningar og lista.

Dómnefnd samfélagsstyrkja var að þessu sinni skipuð þeim Ármanni Jakobssyni, prófessor við Háskóla Íslands, Felix Bergssyni, leikara og Guðrúnu Agnarsdóttur, lækni, en hún var jafnframt formaður dómnefndar.

Samfélagsstyrkir Landsbankans 2017

1.000.000 kr.

  • List án landamæra - List án landamæra er orðinn fastur þáttur í listalífi Íslendinga. Á hátíðinni er sjónum beint að fötluðum listamönnum og þeim gefið tækifæri til að sýna krafta sína og listfengi. List án landamæra fagnar öðru fremur fjölbreytileikanum og því hvernig listin hefur jákvæð áhrif á líf okkar allra.
  • Rauði krossinn í Kópavogi - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Félagsvinir eftir afplánun. Þetta er stuðningsverkefni þar sem fangar geta fengið félagslegan stuðning til þess að hjálpa þeim að byggja upp nýtt og heilbrigðara félagslegt net eftir að afplánun lýkur.
  • Kvenréttindafélag Íslands - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Kynjafræði á öllum skólastigum en félagið hyggst styrkja kynjafræðikennslu á öllum skólastigum með því að halda samráðsfund með kennurum sem kenna kynjafræði og gefa út námsefni fyrir kennslu í kynjafræði.

750.000 kr.

  • Verndarsjóður Skálholtsdómkirkju -Styrkurinn er veittur til viðhalds, lagfæringa og endurbóta á listgluggum Gerðar Helgadóttur í Skálholtsdómkirkju. Skálholt er mikilvægur staður í íslenskri menningarsögu. Þetta forna höfuðból hefur spilað stórt hlutverk í íslenskri listasögu og á síðustu árum er íslensk tónlist og glerlist þar í öndvegi.

500.000 kr.

  • Fjöruverðlaunin - Styrkurinn er veittur til að vinna umgjörð og styrkja undirstöður Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna. Hugmyndin að Fjöruverðlaununum kviknaði árið 2006 vegna ójafnrar kynjaskiptingar handhafa Íslensku bókmenntaverðlaunanna en á tímabilinu 1989-2011 fengur 36 karlar og 11 konur verðlaun.
  • Útgáfa á sönglögum Jórunnar Viðar - Styrkurinn er veittur til hljóðritunar og útgáfu geisladisks með lögum Jórunnar Viðar, tónskálds, sem hefði orðið 100 ára árið 2018. Erla Dóra Vogler og Eva Þyri Hilmarsdóttir munu túlka verk Jórunnar á disknum en þær héldu tónleikaröð með lögum hennar sumarið 2015 sem vakti mikla lukku.
  • Dalrún J. Eygerðardóttir - Dalrún hlýtur styrk til útgáfu bókar um síðustu förukonurnar á Íslandi. Förukonur voru heimilislausar konur sem unnu sér ekki til viðhalds, heldur flökkuðu á milli sveitabæja og báðu sér beina. Markmið útgáfunnar er að vekja athygli á samfélagsstöðu heimilislausra kvenna, bæði í sögunni og í samtímanum. Liður í þeirri vinnu er að láta hluta af söluandvirði bókarinnar renna til Konukots, neyðarathvarfs fyrir konur.
  • Styrktarsjóður Listasafns Sigurjóns Ólafssonar - Sjóðurinn hlýtur styrk til að gera heimildarrit um sögu Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Safnið var rekið sem sjálfseignarstofnun, undir forystu Birgittu Spur, ekkju listamannsins, í nær þrjá áratugi, en var afhent Listasafni Íslands árið 2012. Í dag er þekking almennings á tilurð og sögu safnsins og þeim mikla stuðningi sem almenningur veitti safninu á fyrstu starfsárum þess mjög takmörkuð og því mikilvægt að gefa þetta heimildarrit út.
  • Vísindaskóli unga fólksins - Vísindaskóli unga fólksins er fyrir börn á aldrinum 11-13 ára og er á vegum Háskólans á Akureyri. Vísindaskólinn fer fram á sumrin og er góð kynning á háskólanámi. Síðastliðið ár sóttu fleiri drengir en stúlkur skólann sem er mikilvægt í ljósi þess að tölur sýna að drengir sækja síður háskólanám en stúlkur.
  • Batasetur Suðurlands - Batasetur Suðurlands eru grasrótarsamtök fyrir fólk sem hefur átt eða á við einhvern geðrænan vanda að etja. Styrkurinn er veittur til að setja á laggirnar Unglingaklúbb Bataseturs Suðurlands fyrir börn í 8.-10. bekk en skortur er á úrræðum fyrir ungt fólk með geðrænan vanda á Suðurlandi.
  • Erindi - Styrkur er veittur til að útbúa heildræna þjónustu fyrir alla fjölskylduna til að hlúa að andlegri líðan þegar kemur að eineltismálum barna.
  • Afstaða til ábyrgðar - Verkefnið Fangar betra fanga fær styrk en verkefnið miðar að því að bjóða námskeið í hagnýtum atriðum sem hjálpað geta við aðlögun að samfélaginu eftir að afplánun lýkur.
  • Sigríður Dögg Arnardóttir - Fær styrk til að vinna að stuttmyndinni „Þetta er bara smokkur“ þar sem fólk talar um smokkinn; viðhorf, hindranir og hvernig megi hvetja til notkunar á honum en tíðni ýmissa kynsjúkdóma er mjög há á Íslandi.
  • Geðhjálp - Geðhjálp hlýtur styrk til verkefnisins Bataskóli Íslands. Bataskólinn var stofnaður í ár af Geðhjálp og Reykjavíkurborg en markmið skólans er að nýta þekkingu sérfræðinga og fólks með geðraskanir til að auka innsæi, stuðla að merkingarbærara lífi og aukinni þátttöku geðsjúkra í samfélaginu.
  • HÆLIÐ - setur um sögu berklanna - Styrkurinn er veittur til að byggja upp HÆLIÐ, setur um sögu berklanna á Kristnesi í Eyjafirði en þar var reist berklahæli árið 1927. Þar verður sýning um sögu sjúkdómsins á Íslandi en öll hönnun og upplifun tekur mið af tímabilinu 1900-1950, þegar faraldurinn var í hámarki.

250.000 kr.

  • Tónskáldafélag Íslands - Styrkurinn er veittur til verkefnisins Myrkir músíkdagar en verkefnið er mikilvægur vettvangur samtímatónlistar á Íslandi með fjölbreytta dagskrá þar sem áhersla er lögð á frumsköpun og tilraunastarfsemi.
  • Camerarctica - Styrkurinn er veittur í tilefni af 25. afmælisstarfsári kammerhópsins Camerarctica. Á næsta starfsári hópsins er fyrirhugað að halda fjölda tónleika og frumflytja ný íslensk verk sem eiga erindi til tónlistarunnenda á öllum aldri.
  • Hollvinasamtök Magna – Styrkurinn er veittur til að vinna að endurbótum á dráttarbátnum Magna í þeim tilgangi að varðveita skipið og sögu þess en Magni er fyrsta stálskipið sem smíðað var á Íslandi.
  • Ásbyrgi – Ásbyrgi er dagþjónusta og vinnustofa fyrir fatlað fólk með skerta starfsgetu. Styrkurinn er veittur til kaupa á áhöldum, sníðaborði, saumavél o.fl., en starfsfólk Ásbyrgi vinnur við að endurnýta efni sem fólk er hætt að nota, t.d. garn, tauklæði, kerti, dósir o.fl. og gefa því nýtt líf.
  • Bjarkarhlíð - Styrkurinn er veittur til að efla starfsemi Bjarkarhlíðar, sem er ný þjónustumiðstöð fyrir fullorðna þolendur ofbeldis af öllum kynjum. Bjarkarhlíð eru frjáls félagasamtök þar sem megin markmiðið er að veita þverfaglega þjónustu á forsendum þeirra sem hana sækja.
  • Brakka samtökin – Styrkurinn er veittur til að styðja við starfsemi samtakanna í þeim tilgangi að upplýsa og fræða almenning um BRCA. Mikilvægt er að ná til arfbera, fræðimanna og aðstandenda og hvetja til áframhaldandi umræðna og rannsókna á sviðinu.
  • Rótin - félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda –Styrkurinn er veittur til að halda alþjóðlega ráðstefnu um konur og fíkn, ásamt því að kynna íslenska rannsókn á reynslu kvenna af fíknimeðferð.
  • Björgunarsveitin Björg – Styrkurinn er veittur til að aðstoða við kaup á nýjum björgunarbáti svo björgunarsveitin á Suðureyri verði betur í stakk búin til að sinna verkefnum sínum.
  • Hollvinasamtök Atla Heimis Sveinssonar – Styrkurinn er veittur til að gefa út tugi óútgefinna tónverka tónskáldsins Atla Heimis Sveinssonar og gera verkin þannig aðgengileg almenningi og akademíu. Atli Heimir verður áttræður í september 2018 og stefna samtökin að því að vinna við útgáfu verði vel á veg komin við þau tímamót.
  • Anna Margrét Bjarnadóttir – Styrkurinn er veittur til útgáfu bókar til stuðnings þeim sem hafa misst ástvini í sjálfsvígum og eru að takast á við missinn og lífið með sorginni.
  • Þorgerður J. Einarsdóttir – Styrkurinn er veittur til útgáfu bókarinnar Transbarnið: Handbók fyrir fjölskyldur og fagfólk. Þýðing bókarinnar á íslensku er langt komin og er bókin svar við brýnni þörf fyrir fræðsluefni á íslensku um transbörn.
  • Neptún Magazine – Styrkurinn er veittur til útgáfu fimmta tölublaðs Neptún Magazine sem er íslenskt tímarit sem leggur megináherslu á umfjöllun um íslensku hönnunar- og listasenuna. Efnistök tímaritsins samanstanda af umfjöllunum um skapandi einstaklinga sem vekja athygli með verkefnum sínum.
  • Félag Horizon - Styrkurinn er veittur til að halda stærðfræðikeppnina Pangea þar sem allir nemendur áttundu og níundu bekkja á Íslandi geta tekið þátt. Tilgangur keppninnar er að efla sjálfsmynd barna með því að gera þeim kleift að ná árangri við úrlausn verkefna. Keppnin er haldin í 18 löndum í Evrópu.
  • Árelía Eydís Guðmundsdóttir - Verkefninu Konur, ákvarðanataka og völd er veittur styrkur til að rannsaka hvernig konur í valdastöðum, í mismunandi menningarheimum, taka ákvarðanir og hvaða afleiðingar þær hafa.
  • Samtök grænmetisæta á Íslandi - Styrkurinn er veittur til að styðja við átaksverkefnið, Veganúar, þar sem markmiðið er að vekja fólk til umhugsunar um áhrif neyslu dýraafurða og kynna kosti vegan fæðis fyrir heilsu, umhverfi og dýravernd.
  • Blátt áfram - Styrkur er veittur til að vinna að þýðingu leiðbeiningabókar fyrir foreldra til að ræða mörk og einkastaði líkamans yfir á ensku og pólsku.
  • Hanna Björk Valsdóttir - Styrkurinn er veittur vegna heimildarmyndar um Snorra Magnússon sem er frumkvöðull í ungbarnasundi á Íslandi.
  • Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir - Þær fá styrk fyrir Hinseginleikinn sem er fræðsluvettvangur sem ætlað er að fræða ungmenni um hinsegin veruleika, veita þeim fleiri hinsegin fyrirmyndir og brjóta niður staðalímyndir.
  • Einar Ingþór Einarsson - Einar fær styrk vegna verkefnisins Rok jóga sem miðar að því að bjóða uppá jógakennslu í fangelsum á Íslandi.
  • Marloes Robijn - Styrkur er veittur til verkefnisins Lestrarvinir sem gengur út á að lesið er fyrir börn sem hafa ekki íslensku sem fyrsta tungumál og þar sem fjölskyldan er ekki fær um að lesa íslensku fyrir barnið.
  • Ágústa Fanney Snorradóttir - Styrkurinn er veittur vegna verkefnisins Efnaskipti en það er heimildarmynd sem fjallar um geðheilbrigðismál á Íslandi.
  • Óbyggðasetur - Styrkur er veittur til Óbyggðaseturs Austurlands vegna Stjörnuskoðunarstöðvar, sem er upplifunar- og fræðsluhreiður, þar sem gestir geta fengið að stara upp í stjörnuhimininn í einstöku umhverfi án ljósmengunar.
  • Vitvélastofnun Íslands - Vitvélastofnun Íslands fær styrk til að halda gervigreindarhátíð í Háskólanum í Reykjavík sem ber yfirskriftina „Gervigreind og atvinnulífið: Iðnbylting í uppsiglingu“.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
12. apríl 2024
Yfirlýsing frá bankaráði Landsbankans
Líkt og fram kemur í greinargerð bankaráðs Landsbankans til Bankasýslu ríkisins frá 22. mars sl. þá átti bankaráð, frá miðju ári 2023, frumkvæði að því að upplýsa Bankasýsluna um áhuga bankans á að kaupa TM. Þann 20. desember 2023, sama dag og bankinn gerði óskuldbindandi tilboð í félagið, var Bankasýslan upplýst í símtali um að bankinn væri þátttakandi í söluferli TM. Bankasýslan setti aldrei fram athugasemdir eða óskaði eftir frekari upplýsingum eða gögnum fyrr en eftir að tilboð bankans hafði verið samþykkt.
Peningaseðlar
4. apríl 2024
Vegna norskra, sænskra og danskra seðla
Notkun reiðufjár fer minnkandi í Evrópu og sérstaklega á Norðurlöndunum. Aukin notkun á stafrænni tækni í verslun og viðskiptum og heimsfaraldur hafa flýtt þeirri þróun. Varnir gegn peningaþvætti hafa einnig sett gjaldeyrisviðskiptum með reiðufé verulegar skorður og hafa lög og reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti verið hertar, sérstaklega á Norðurlöndunum.
Stúlka með síma
27. mars 2024
Þjónusta um páskana – appið getur komið sér vel!
Útibú og þjónustuver Landsbankans verða að venju lokuð um páskana og opna næst þriðjudaginn 2. apríl nk.
Eystra horn
25. mars 2024
Hagnaður Landsbréfa 1.035 milljónir á árinu 2023
Landsbréf hf., dótturfélag Landsbankans, hafa birt ársreikning vegna reksturs ársins 2023. 
15. mars 2024
Landsbankinn lækkar vexti
Landsbankinn lækkar vexti á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum með fasta vexti.
Netbanki
15. mars 2024
Skert þjónusta vegna viðhalds aðfaranótt sunnudags
Vegna kerfisuppfærslu verður tiltekin þjónusta bankans ekki aðgengileg aðfaranótt sunnudagsins 17. mars. Gert er ráð fyrir að þjónustan verði skert frá miðnætti laugardagskvöldið 16. mars til kl. 7.00 á sunnudagsmorgun.
Stúlkur með síma
11. mars 2024
Landsbankaappið tilnefnt sem app ársins
Landsbankaappið hefur verið tilnefnt sem app ársins 2023 á Íslensku vefverðlaununum sem verða afhent 15. mars næstkomandi.
Fjölskylda
7. mars 2024
Endurfjármögnun aldrei verið þægilegri
Núna getur þú endurfjármagnað íbúðalánið þitt með enn einfaldari hætti á vefnum eða í Landsbankaappinu. Endurfjármögnun íbúðalána hefur aldrei verið þægilegri eða fljótlegri.
Fjármálamót á pólsku
4. mars 2024
Takk fyrir komuna í Reykjanesbæ!
Frábær mæting var á annað Fjármálamót Landsbankans á pólsku í síðustu viku. Fjármálamót er heitið á fræðslufundaröð Landsbankans og var fundurinn haldinn í Reykjanesbæ að þessu sinni, í samstarfi við Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis.
Peningaseðlar
1. mars 2024
Útleiðum danska, norska og sænska seðla
Landsbankinn mun hætta kaupum og sölu á reiðufé í þremur Norðurlandagjaldmiðlum á næstunni. Um er að ræða norskar, sænskar og danskar krónur. 
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur